Erlent

Gulstakkar mættu í sendiráð Íslands í París

Birgir Olgeirsson skrifar
Gulstakkarnir voru sagðir friðsamir og kurteisir þegar þeir báru upp erindi sitt.
Gulstakkarnir voru sagðir friðsamir og kurteisir þegar þeir báru upp erindi sitt.
Meðlimir hreyfingarinnar sem kennir sig við Gulstakka mætti í sendiráð Íslands í París síðdegis í gær til að óska eftir áliti íslenskra yfirvalda á aðgerðum þeirra. Tilkynntu þeir starfsmönnum sendiráðsins að búsáhaldabyltingin á Íslandi væri þeim fyrirmynd og vildu fá að ræða við sendiherra Íslands í París.

Hann var ekki við og brugðu þeir því á það ráð að handskrifa erindi sitt til íslenskra yfirvalda. 

Gulstakkarnir hófu mótmæli í nóvember síðastliðnum vegna boðaðra eldsneytishækkana frá ríkisstjórn forseta Frakklands, Emmanuel Macron. Mótmælin urðu til þess að Macron dró í land en Gulstakkarnir héldu sínum mótmælum áfram og hafa boðað framboð til Evrópuþingsins í vor.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við Vísi að Gulstakkarnir hefðu lýst yfir hrifningu sinni á búsáhaldabyltingunni og að Ísland væri á einhvern hátt fyrirmynd þeirra í þeim efnum. Hann sagði þá hafa verið fyrirferðarmikla í móttöku sendiráðsins en þeir hafi verið friðsamir og kurteisir þegar þeir báru upp erindi sitt. 

Þegar þeir höfðu komið skilaboðunum áleiðis, þar sem þeir óskuðu eftir áliti íslenskra stjórnvalda á aðgerðum þeirra, létu þeir sig hverfa en fóru víst í fleiri sendiráð í París. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband af heimsókn Gulstakkanna í sendiráðið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×