Innlent

Lúxus að geta valið úr störfum

Sighvatur Jónsson skrifar
Íslensk fyrirtæki leita í auknum mæli eftir fólki í tækni- og tölvustörf segir ráðgjafi hjá ráðningarskrifstofu sem sérhæfir sig í störfum í upplýsinga- og tæknigeiranum. Hlutfall kvenna í tæknistörfum hafi aukist mikið undanfarin ár.

Ráðningarskrifstofan Teqhire sérhæfir sig í störfum við upplýsingatækni, innanlands sem utan. Ráðgjafar fyrirtækisins finna fyrir aukinni spurn eftir fólki. Þá hefur ráðningarhlutfall kvenna farið úr 10% í 40% í sex ára sögu Teqhire.

Nauðsynlegt að skera sig úr

Kathryn Elizabeth Gunnarsson, ráðgjafi hjá Teqhire, segir að margir viðskiptavinir þeirra leiti að fólki með reynslu af því að vinna með nýja tækni. „Fólk verður að virkja tengslanetið. Það er mjög mikilvægt að skera sig úr.“

Kathryn segir að margir séu með sömu tæknina á ferilskránni, sérstaklega fólk sem hefur tekið sömu námskeiðin í háskóla.

Hún segir mikilvægt að hafa meðmæli og að fólk hugsi um mismunandi leiðir til að nálgast fyrirtæki þegar sótt er um vinnu. Kathryn bendir fólki á að líta ekki bara til stóru tæknifyrirtækjanna, tækifærin séu víða.

Salvar og starfsfélagar hans hjá sprotafyrirtækinu Róró.Vísir/Sigurjón

Tækifæri í tæknigeiranum

Salvar Sigurðarsson tölvunarfræðingur vildi breyta til og færði sig til sprotafyrirtækis sem framleiðir dúkkur sem hjálpa börnum að sofa.

„Þetta er mjög viðeigandi staður núna fyrir mig af því að við eigum rúmlega tveggja ára strák og erum á þessu tímabili þar sem foreldrar sofa ekkert af því að börnin þeirra eru að læra að sofa.“

Salvar segir að hæft fólk með góða menntun geti valið úr störfum í tæknigeiranum.

„Ég hafði þann lúxus að geta sagt að mig langaði að vinna við eitthvað heilnæmt og sniðugt,“ segir Salvar. Aðspurður um hvort launin séu góð segist hann vera sáttur við þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×