Erlent

Lögreglumenn dæmdir fyrir að nauðga ferðamanni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá 36 Quai des Orfevres.
Frá 36 Quai des Orfevres. EPA/ETIENNE LAURENT
Tveir franskir lögreglumenn hafa verið dæmdir fyrir að nauðga kanadískri konu í sögufrægum höfuðstöðvum lögreglu í París árið 2014. Mennirnir hlutu sjö ára dóm fyrir brot sín.

Konan, kanadískur ferðamaður að nafni Emily Spanton, sagði fyrir rétti að hún hafi hitt hóp lögreglumanna á bar. Þeir hafi svo boðið sér í skoðunarferð um höfuðstöðvarnar en þegar þar var komið nauðguðu þeir henni. Hún sagði þrjá menn hafa verið að verki en aldrei hefur tekist að auðkenna einn þeirra.

Mennirnir tveir sem ákærðir voru, Nicolas Redouane og Antoine Quirin, hafa ætíð haldið fram sakleysi sínum og fullyrtu að Spanton hafi veitt samþykki fyrir samförum umrætt kvöld. Dómurinn komst þó að þeirri niðurstöðu að vitnisburður Spanton væri trúanlegur og að lífsýni sýndu jafnframt fram á sekt mannanna. Var mönnunum jafnan gert að greiða Spanton 20 þúsund evrur, um 2,7 milljónir íslenskra króna, í miskabætur.

Vettvangur glæpsins, lögreglustöðin við 36 Quai des Orfevres í París, er sögufrægt kennileiti borgarinnar en byggingin er sögusvið ýmissa franskra skáldsagna og bíómynda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×