Innlent

Ýmsar ástæður fyrir minnkandi frjósemi

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Fjöldi fæðinga á ævi hverrar konu var eitt komma sjö barn hér á landi á síðasta ári en var 2,8 börn árið 1970. Til að viðhalda mannfjöldanum þarf hún að vera um 2,1 barn. Ragnhildur Magnúsdóttir fæðingar-og kvensjúkdómalæknir hjá Livio Reykjavík segir skorta þekkingu á frjósemi en sífellt stærri hópur kvenna hugi ekki að barneignum fyrr en um 35 ára aldur sem sé of seint.

„Þær eru að verða eldri en þá verða til færri börn því það er ekki nægur tími, eiga erfiðara með að ná þungun og missa frekar fóstur. Þær halda að þær geti átt börn miklu lengur en lífsklukkan segir til um,“ segir Ragnhildur.

Signý Hersisdóttir, fósturfræðingur hjá Livio Reykjavík, segir að frjósemi hafi minnkað um 40% hjá körlum síðan 1970. Ýmsir þættir hafi áhrif á frjósemina.

„Frjósemin hefur snarminnkað vegna hækkandi aldurs fólks, þyngdaraukningar en líka of lítil þyngdar. Reykingar og lífshættir hafi einnig mikil áhrif á frjósemi. Plast í umhverfinu getur haft áhrif á frjósemi karla og of mikil seta en hún getur valdið minni sæðisframleiðslu,“ segir Signý.

Fyrirtækið Livio sem þær Ragnhildur og Signý starfa hjá sér um meðferðir við ófrjósemi en meðalaldur kvenna sem þurfa á meðferð að halda er 36 ára. Ragnhildur segir að ef konur séu orðnar of gamlar sé gjafaegg oft meðal síðustu úrræðanna í meðferð. Hins vegar sé löng bið eftir þeim.

„Það er um árs biðslisti eftir gjafaeggjum og á þeim lista eru 60 konur. Í fyrra gáfu 40 konur egg en þörfin fyrir slíkt er sívaxandi,“  segir Ragnhildur að lokum. 

Málþingi um aldur og frjósemi er haldið á Læknadögum í Hörpu á morgun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.