Erlent

Handteknir fyrir að reyna að múta pappaspjaldi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem mennirnir tveir birtu á Facebook.
Skjáskot úr myndbandinu sem mennirnir tveir birtu á Facebook. Lögreglan í Vavuniya
Lögreglan í bænum Vavuniya í Srí Lanka hefur handtekið tvo menn sem birtu myndband af sér þar sem þeir annar þeirra þóttist bjóða pappaspjaldi af lögreglumanni mútur.

Mönnunum tveimur, sem nú hefur verið sleppt gegn tryggingargjaldi, er gefið að sök að hafa eyðilagt almannaeigur, en lögreglan segir höfuð pappaspjaldsins hafa skaddast við verknaðinn. Þá hafa mennirnir einnig verið ákærðir fyrir að niðurlægja lögregluna og draga upp af henni slæma mynd. Mútugreiðslur til lögreglunnar vegna umferðarlagabrota eru tíð í Srí Lanka.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mál pappaspjalda sem þessa, sem ætlað er að draga úr hraðakstri, ratar á borð lögreglunnar. Á síðasta ári voru tveir unglingar handteknir fyrir að grípa svipað spjald ófrjálsri hendi og taka með sér heim.

Transparency International, óháð alþjóðasamtök gegn spillingu, sögðu í samtali við BBC að þau teldu lögregluna í Srí Lanka vera eina spilltustu stofnun landsins.

„Þetta mál er enn ein sönnun skorts á vilja til að koma á fót einföldu kerfi til þess að sporna við mútugreiðslum til umferðarlögreglunnar,“ sagði Asoka Obeysekara, höfuð Transparency International í Srí Lanka.

Yfirmaður umferðarlögreglunnar í landinu hefur áður lýst því yfir að verið sé að gefa ráðstafanir til þess að taka á mútuþægni lögreglumanna og hvatti almenning til þess að tilkynna þá lögregluþjóna sem þegið hafa mútur.

Myndbandið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×