Fótbolti

Tók ekki langan tíma að hugsa þetta

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eiður Smári, Arnar Þór og Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Eiður Smári, Arnar Þór og Guðni Bergsson, formaður KSÍ. Fréttablaðið/Stefán
Það var staðfest í gær að Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen myndu taka við U21 árs liði Íslands í karlaflokki af Eyjólfi Sverrissyni.  Arnar Þór og Eiður Smári, fyrrverandi herbergisfélagar þegar þeir léku með A-landsliðinu skrifuðu undir tveggja ára samning sem gildir út næstu undankeppni EM sem lýkur í nóvember 2020.

Þetta verður fyrsta þjálfarastarf Eiðs Smára en Arnar hefur unnið fyrir Lokeren og Club Brugge undan­farin ár ásamt því að aðstoða A-landsliðið við að leikgreina Belga í haust.

„Þetta skref kom aðeins fyrr en ég átti von á en ég þurfti ekki langan tíma til að hugsa um þetta þegar tilboðið kom. Við Arnar þekkjumst vel, innan sem utan vallar, og hann er einn af fáum mönnum sem ég hefði farið með í þetta verkefni,“ sagði Eiður Smári. Arnar mun áfram vinna hjá Lokeren en tók því fagnandi að vinna með íslenska liðið.

„Ég verð áfram hjá Lokeren út þetta tímabil hið minnsta, við munum spila þetta eftir hendinni næstu mánuðina en ég mun fylgjast vandlega með þeim leikmönnum sem eru úti. Ég er miðsvæðis og get því farið víða og Eiður getur fylgst betur með hérna heima. Næstu mánuðirnir fara í að skoða vandlega leikmenn þar sem við höfum góðan tíma fyrir fyrsta keppnisleikinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×