Erlent

Flugfélag skipar starfsfólki sínu að grennast

Andri Eysteinsson skrifar
Vél flugfélagsins PIA
Vél flugfélagsins PIA EPA/Mauritz Anten
Flugliðar og þjónustuliðar Pakistan International Airlines, PIA, fékk á nýársdag senda skipun um að grennast frá framkvæmdastjóra flugfélagsins, Aamir Bashir. CNN greinir frá bréfasendingu PIA.

Í bréfinu segir Bashir starfsfólki sínu að það hafi hálft ár til að koma sér niður í kjörþyngd ellegar fái það ekki að fljúga. Um er að ræða aðgerð flugfélagsins til að takast á við yfirþyngd í flugvélum félagsins.

Félagið hefur gefið út þyngdarstaðla fyrir mismunandi hæð og líkamsgerðir í þeim segir meðal annars að konur sem eru um 170 cm að hæð skuli vera á bilinu 60 til 66 kílógrömm. Eins og er verður starfsmönnum sem eru 15 kílóum yfir efri mörkun leyft að starfa áfram en vikmörkin munu minnka um rúm 2kg í hverjum mánuði.

Samkvæmt talsmanni PIA munu rúmlega 5% starfsmanna, rétt um 100 manns þurfa að taka sig á til að geta haldið starfi sínu í háloftunum áfram. Talsmaðurinn sagði aðgerðirnar vera venjulegar og kvað flugfélagið hafa fengið kvartanir vegna þjónustuliða í yfirþyngd.

Ráðist væri í aðgerðirnar svo að starfsfólkið yrði grannt, flott og í góðu formi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×