Tónlistarhátíðin Secret Solstice verður haldin í Laugardalnum 21.-23. júní. Samningur Reykjavíkurborgar við aðstandendur hátíðarinnar var lagður fyrir í borgarráði í dag og samþykktur. Þá hefur einnig verið samið um 19 milljóna króna skuld hátíðarinnar við borgina.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs segir í samtali við Vísi að samningar hafi náðst og hátíðin verði haldin í Laugardalnum með gjörbreyttu sniði en fyrri ár. Tekið hafi verið mið af umsögnum og tillögum ýmissa hagsmunahópa í hverfinu.
Hátíðardögum verði fækkað og skemmtanahaldi ljúki í Laugardalnum fyrir miðnætti. Þá verði engin partí í Laugardalshöll fram eftir nóttu og aðstandendur Secret Solstice og Reykjavíkurborg mini auk þess halda vel utan um öryggisatriði, forvarnir og hreinlæti í tengslum við hátíðina.
„Þetta verður miklu, miklu strangari umgjörð og agaðra og betra utanumhald,“ segir Þórdís Lóa. „Það eru miklu fleiri sem vilja halda í hátíðina, en tryggja umgjörðina, en þeir sem vilja ekki að hún verði haldin.“
Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að Secret Solstice skuldi Reykjavíkurborg 19 milljónir króna. Þórdís Lóa segir að í samningi hátíðarinnar við borgina sé samkomulag um þessa skuld.
Fyrirkomulagið verði með þeim hætti að styrkur borgarinnar til Secret Solstice fari upp í skuldina og restin verði greidd á umsömdum gjalddögum.
