Greint er frá andláti hans á vef breska dagblaðsins The Guardian en þar kemur fram að hann hafi dáið í gærkvöldi.
Hann fæddist árið 1937 og var nefndur Richard Anthony Monsour af foreldrum sínum.
Dale var undir miklum áhrifum af uppruna sínum frá miðausturlöndunum og þróaði þannig sérstakan gítarhljóm sinn ásamt því að bæta við votum endurómi. Það hvernig hann sló strengina þótti einnig einstakt þegar hann ruddist fram á sjónarsviðið en hann sló gítarstrengina á miklum hraða eins og heyrist hvað best í laginu Misirlou.
Fimmta smáskífan hans, Let´s Go Trippin sem kom út árið 1961, er af mörgum talin vera upphaf brimbrettarokks án söngs. Hljómsveitin The Beach Boys leiddi síðan seinni bylgju brimbrettarokksins með sönglögum sínum.
Dale sagði eitt sinn frá því að Frank Sinatra hefði boðist til að gerast umboðsmaður hans en Dale hafnaði boðinu sökum þess að Sinatra vildi fá 90 prósent af tekjum hans.
Hann tók virkan þátt í þróun Fender Stratacaster-gítarsins en allt sem kom úr smiðju Leo Fender var borið undir Dale.
Rifjaði Dale upp að Leo Fender hefði haldið því fram að ef gítararnir þoldu barsmíðarnar frá Dale þá gætu þeir þolað allt.
Lagið Misirlou er í grunninn grískt þjóðlag sem Dale einfaldlega hraðaði til muna og sló í gegn árið 1962. Árið 1994 notaði leikstjórinn Quentin Tarantino lagið í byrjun myndarinnar Pulp Fiction.