Juventus tók toppsæti Seria A af Inter Milan með 2-1 sigri í toppslag liðanna á San Síró í kvöld.
Fyrir leikinn var Inter með fullt hús stiga á toppi deildarinnar en Juventus hafði gert eitt jafntefli.
Gestirnir frá Tórínó byrjuðu leikinn betur og kom Paulo Dybala þeim yfir strax á fjórðu mínútu leiksins. Cristiano Ronaldo var nálægt því að tvöfalda forskot Juventus fjórum mínútum seinna þegar hann skaut í slána.
Á 18. mínútu fékk Inter vítaspyrnu þegar Mattijs de Ligt fékk boltann í hendina innan vítateigs. Hann hefði getað skallað boltann, en ákvað að henda líkamanum fyrir í staðinn og fékk boltann því í hendina. Lautaro Martinez fór á punktinn og jafnaði metin.
Ronaldo kom boltanum í netið undir lok fyrri hálfleiks en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu með hjálp myndbandsdómgæslu.
Staðan var jöfn fram á 80. mínútu þegar Gonzalo Higuain fékk hárnákvæma sendingu frá Rodrigo Bentancur og skilaði henni í netið.
Inter náði ekki að svara fyrir sig, lokatölur urðu 2-1 og Juventus tók toppsætið.
Higuain tryggði Juve toppsætið
