Lögreglan hafði í nógu að snúast seint í nótt og snemma morguns. Tilkynnt var um líkamsárás við Ingólfstorg á sjötta tímanum í morgun þar sem maður hafði verið kýldur og var hann með áverka á höfði og skerta meðvitund. Árásarmaðurinn hafði farið af vettvangi og er málið nú til rannsóknar.
Tveir voru stöðvaðir í hverfi 105 grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og var annar sviptur ökuréttindum vegna ítrekaðra brota. Í sama hverfi voru afskipti höfð af manni vegna vörslu fíkniefna.
Maður var handtekinn í Hafnarfirði grunaður um eignaspjöll og líkamsárás eftir að hafa kastað grjóti í svalahurð íbúðar á jarðhæð. Grjótið fór í gegnum rúðuna og í gest sem var í íbúðinni en ekki er vitað um meiðsl hans. Maðurinn var vistaður í fangageymslu og er málið í rannsókn.
Í Garðabæ var óskað eftir aðstoð lögreglu eftir að farþegi neitaði að greiða leigubílstjóra fyrir farið og fékk bílstjórinn greitt eftir að lögregla mætti á vettvang.
Þá var bifreið stöðvuð í Ártúnsbrekku eftir að hraði bílsins mældist 107 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.
Rétt fyrir klukkan sjö í morgun voru afskipti höfð af ökumanni bifreiðar í Breiðholti eftir að hann ók yfir gatnamót á rauðu ljósi. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og ók að íbúðablokk þar sem hann lagði bifreiðinni og færði sig í aftursætið. Maðurinn neitaði að fara úr bifreiðinni og var hann handtekinn og er grunaður um ölvunarakstur en var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.
Ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og færði sig í aftursætið
Sylvía Hall skrifar
