Ísland gerði markalaust jafntefli við Eistland í vináttuleik í Katar í dag. Erik Hamrén er því enn án sigurs sem landsliðsþjálfari Íslands.
Leikurinn í kvöld var frekar rólegur og færin voru fá. Ísland var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og byrjaði seinni hálfleikinn af krafti. Eistar sóttu á undir lokin en ekki kom mark í leikinn.
Þar sem ekki er um alþjóðlegan leikdag að ræða var lið Íslands að megninu skipað óreyndari mönnum. Þrír leikmenn þreyttu frumraun sína með íslenska A-landsliðinu.
Davíð Kristján Ólafsson spilaði allan leikinn en Willum Þór Willumsson og Alex Þór Hauksson komu inn í seinni hálfleik.
Íslenska liðið hefur nú lokið æfingaferð sinni í Katar þar sem liðið gerði einnig jafntefli við Svía 2-2.

