Héraðssaksóknari hefur höfðað mál á hendur 26 ára konu fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í Grafarholti í júní 2017. Konunni er gefið að sök að hafa ráðist á 33 ára gamla konu með því að siga á hana hundi af tegundinni Dobermann, rífa í hár hennar og draga hana þannig niður í jörðina.
Þar á ákærða að hafa veist að henni meðal annars með því að sparka í eða traðka á brjóstkassa hinnar konunnar að minnsta kosti tvisvar sinnum, sparka að minnsta kosti einu sinni í andlit hennar auk þess sem hundurinn glefsaði og klóraði í hana.
Allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og bólgu á vinstra augnloki og augnsvæði, töluvert aflagðan brjóstkassa, rifbrot og skrapsár á ofanverðum vinstri úlnlið.
Brot konunnar telst varða við 2. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga. Samkvæmt heimildum Vísis voru upphaflega tveir grunaðir í málinu. Lögregla felldi niður mál á hendur öðrum hinna grunuðu.
Konan sem fyrir árásinni varð krefst 850 þúsund króna í miska- og skaðabætur.
Í fyrri útgáfu stóð að árásin hefði átt sér stað í Grafarvogi en ekki Grafarholti.
