Þetta leggst á sálina á mörgum og þannig er það í tilfelli Arngríms Baldurssonar sem ákvað að berjast á móti. Hann fór í kostnaðarsama og sársaukafulla aðgerð til að fá hárið á ný og myndi fara sömu leið aftur eins og hann segir í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.
„Pabbi minn var sköllóttur en hann var svona sköllóttur á huggulegan hátt,“ segir Arngrímur.
„Hann var með svona skemmtilegan sveip og mér fannst það bara mjög huggulegt. En ég var að þróast í það að fá munkaskalla og var ekki tilbúinn að skella mér í kufl og ganga í klaustur. Þannig að mig langaði aðeins að breyta því.“
Arngrímur segir að það séu klár ummerki að maður sé að eldast þegar hárið fer að falla. Það hafi verið erfitt að takast á við.

„Mér finnst þetta lúkk ekki fara mér vel,“ segir Arngrímur sem tók málin í eigin hendur og fór í hárígræðslu í Tyrklandi en það er aðgerðin mun ódýrari en í öðrum löndum, en hann borgaði 250 þúsund krónur. Arngrímur tók alla fjölskylduna með og gerði frí úr öllu ferlinu. Hann fór í klukkustunda viðtal og síðan beint á skurðborðið.
„Ef þér finnst vont að vera deyfður hjá tannlækni þá getur þú margfaldað þetta með svona 25. Hausinn á þér er mjög viðkvæmt svæði og maður er ekki beint vanur því að það sé verið að sprauta deyfiefni í hausinn á manni. Þegar yfir lauk var búið að sprauta sextíu sinnum í hausinn á mér og ég alltaf vakandi. Ég hélt að ég yrði sofandi í þessari aðgerð.“
Hann segir að þegar deyfingunni er lokið sé byrjað á því skjóta niður til að ná hári upp með rótum. Þetta sé gert á svæði þar sem Arngrímur er hærður.

Aðgerðin tók alls tíu tíma.
„Ég er þarna í tíu tíma og svo er manni skutlað heim í fansí leigubíl,“ segir hann en næstu fimm daga varð hann síðan að passa sig töluvert. Það mátti ekki rigna á höfuðið, hann varð að sofa á bakinu og mátti ekki klóra sér í hausnum. Arngrímur varð fyrir töluverðum áverkum á hægri hlið höfuðsins þar sem hársekkirnir voru fjarlægðir.
„Það blæddi svo mikið og ég held að það sé ekkert rosalega venjubundið að maður fái svona mikla áverka en þeim fannst þetta mjög jákvætt, því þá væri höfuðið á mér svo blóðríkt.“
Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.