Innlent

Skemmtistaðurinn Shooters innsiglaður

Sighvatur Jónsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur innsiglað skemmtistaðinn Shooters í Austurstræti. Lögreglan staðfestir þó ekki að húsleit hafi verið gerð á skemmtistaðnum í aðgerðum lögreglu í miðborginni.

Lögreglan staðfestir ekki að húsleit hafi verið gerð á skemmtistaðnum Shooters.Vísir/Egill
Í tilkynningu frá lögreglunni sem send var fjölmiðlum í hádeginu kemur fram að húsleit hafi verið gerð á átta stöðum. Meðal annars hafi verið gerð húsleit á skemmtistað í miðborginni vegna gruns lögreglu um umfangsmikla brotastarfsemi. Samkvæmt heimildum fréttastofu er Shooters skemmtistaðurinn sem um ræðir.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að húsleit lögreglu á stöðunum átta hafi verið gerð aðfaranótt laugardags og fram á morgun.

Karl Steinar vill ekki staðfesta að húsleit hafi verið gerð á skemmtistaðnum Shooters í aðgerðum lögreglu.

Shooters hefur verið innsiglaður af lögreglunni.Vísir/Egill
Starfsmenn á bar við hliðina á Shooters í Austurstræti segjast hafa tekið fyrst eftir innsigli á skemmtistaðnum í gær, laugardag.

Lögreglan veitir ekki frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.