Fótbolti

Alfreð: Enska deildin í ár er kannski orðin eins og þýska deildin síðustu ár

Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu á móti Bayern München á dögunum.
Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu á móti Bayern München á dögunum. Getty/TF-Images
Alfreð Finnbogason er kominn aftur á fullt hjá þýska liðinu Augsburg og skoraði á dögunum í jafntefli á móti Bayern München. Það eru spennandi tímar í þýsku deildinni á þessu tímabili þar sem spennan á toppnum hefur sjaldan verið meiri.

„Ég ætla ekki að neita því að það var mjög sérstakt að skora á móti Bayern sérstaklega af því að við erum litla liðið í Bæjaralandi. Það var því mjög sérstakt fyrir Augsburg og fyrir bæjarbúa að ná í stig á móti þeim. Fyrir okkar stöðu í deildinni þá var það líka risapunktur,“ sagði Alfreð Finnbogason.

Augsburg er núna í fimmtánda sæti deildarinnar, síðasta örugga sætinu, eftir ellefu umferðir en liðið hefur náð í fjögur af tíu stigum sínum í síðustu tveimur umferðum.

Borussia Mönchengladbach er óvænt á toppi deildarinnar og nú með fjögurra stiga forystu. Bayern München er í hópi þriggja liða sem koma næst en hin eru Leipzig og Freiburg. Það eru síðan bara tvö stig niður í sjötta og sjöunda sætið þar sem sitja Dortmund og Schalke.

„Þetta er orðið jafnara. Toppliðin eru að hiksta og það eru fleiri lið í toppbaráttu eins og Mönchengladbach, Leipzig og Freiburg sem eru að halda í við Dortmund og Bayern. Dortmund og Bayern eru ekki búin að vera eins sannfærandi og búist er við af þeim,“ sagði Alfreð.

„Þetta er mjög gott fyrir þýsku deildina. Enska deildin í ár er kannski orðin eins og þýska deildin hefur verið síðustu ár. Það eru eitt eða tvö lið að stinga af. Þetta hefur mjög jákvæð áhrif og heldur toppliðunum á tánum. Þetta breytist alltaf frá ári til árs en á endanum held ég að Bayern vinni þetta,“ sagði Alfreð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.