Innlent

Danskir læknar styðja umskurðarfrumvarpið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Vísir/pjetur
Yfir þúsund danskir læknar, nánar tiltekið 1033, hafa sent Alþingi umsögn um frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um bann við umskurði drengja.

Í umsögninni lýsa þeir yfir stuðningi við frumvarpið og segja umskurð, sem sé ekki hluti af meðferð sjúklings, siðferðislega rangan auk þess sem hann stangist á við Hippókratesareið lækna um að valda engum skaða.

Umskurður sé, líkt og allar aðrar skurðaðgerðir, sársaukafull aðgerð og henni fylgi óþægindi og áhætta fyrir þann sem gengst undir hana. Umskurður sem gerður er án þess að vera hluti af einhvers konar læknismeðferð þjóni engum tilgangi og það að gera slíkt við börn sem eru ófær um að veita upplýst samþykki er ósiðlegt að mati dönsku læknanna.

Þeir segja jafnframt að börn eigi rétt á því að líkami þeirra sé virtur og verndaður frá hvers konar ónauðsynlegum aðgerðum, sársauka, óþægindum og hugsanlegum skaða. Sem betur hafi stúlkum verið tryggður þessi réttur þar sem umskurður á kynfærum stúlkna og kvenna er bannaður; nú sé kominn tími til að tryggja jafnrétti kynjanna hvað þetta varðar og frumvarp Silju muni skila því.

Eins og áður segir skrifa 1033 læknar undir umsögnina. Þeir eru flest allir danskir þó nokkra íslenska lækna megi einnig finna á listanum.

Umskurðarfrumvarpið hefur vakið mikla athygli og hafa ýmsir lagst gegn því, þar með talið talsmenn gyðinga erlendis og fulltrúar kaþólsku kirkjunnar. Íslenskir læknar styðja hins vegar frumvarpið sem og umboðsmaður barna, svo einhverjir séu nefndir.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.