Þetta kemur fram í svörum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn Fréttablaðsins. Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá eru nú 29 mál er varða kynferðisbrot gegn börnum til rannsóknar hjá lögreglu. Þykja þau óvenju mörg og hefur farið fjölgandi síðustu mánuði.
Í samantekt lögreglunnar á upplýsingum um fjölda tilkynntra kynferðisbrota gegn börnum árin 2011 til 2017 og stöðu þeirra segir að rúm 40 prósent kynferðisbrota gegn börnum sem tilkynnt voru til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í fyrra séu enn í rannsókn. Ákært var í 22,7 prósentum mála í fyrra en rannsókn hætt hjá ákæruvaldi í rúmlega 12 prósentum mála.

Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, segir að þar á bæ hafi fólk ekki fundið fyrir óeðlilegu álagi undanfarið, á því kunni þó að vera skýringar.
„Það er búið að vera jafnt og þétt álag á okkur. En það getur komið seinna til okkar. Sérstaklega ef um er að ræða unglinga sem eru 15-17 ára sem fara í skýrslutöku hjá lögreglu, þá líður alltaf ákveðinn tími þar til óskað er eftir meðferð í Barnahúsi fyrir þau. Þunginn kemur til lögreglu fyrst og við finnum seinna fyrir því,“ segir Ólöf Ásta. Hún segir sömu sögu vera að segja af yngstu börnunum, þar hafi verið jafnt og þétt álag.
„En þar var svolítið mikið um jólin, mikill þungi.“

„Svo er að fjölga hjá okkur vegalausu börnunum. Það var talið að það yrðu fjögur til fimm á ári en við fengum tuttugu vegalaus, eða hælisleitandi, börn í fyrra. Það er aukning þar.“