Fótbolti

„Meistaradeildin er Disneyland fótboltans“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luciano Spalletti tekur af sér sjálfu með stuðningsmönnum Inter.
Luciano Spalletti tekur af sér sjálfu með stuðningsmönnum Inter. Vísir/Getty
Luciano Spalletti er mættur með lið Internazionale í Meistaradeildina og lætur eins og krakki í ævintýraheimi Disneyland. Svo lýsir hann allavega tilfinningunni sjálfur.

Luciano Spalletti tók við liði Internazionale fyrir síðasta tímabil og kom því inn í Meistaradeildina í fyrsta sinn í sex ár eða síðan tímabilið 2011-12.  Internazionale  náði fjórða sætinu og hækkaði sig um þrjú sæti frá tímabilinu á undan.

Fyrsti leikur Internazionale í Meistaradeildinni í ár er jafnframt fyrsti leikur Meistaradeildarinnar en liðið tekur á móti Tottenham á San Siro klukkan 16.55 í dag. Leikurinn verður sýndir beint á Stöð 2 Sport.

„Meistaradeildin færir manni fallega upplifun eins og að vera staddur í skemmtigarði fótboltans,“ sagði Luciano Spalletti á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Það fallega við Meistaradeildina er að hún breytir leikvöngum í Disneyland fótboltans þar sem draumar allra geta ræst,“ sagði Spalletti.





Internazionale hefur aðeins náð í fjögur stig út úr fyrstu fjórum deildarleikjum tímabilsins og er í 15. sæti ítölsku deildarinnar. Það mætti halda að hugur Luciano Spalletti hafi kannski verið við Meistaradeildina í upphafi tímabilsins.

Internazionale fór í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar þegar liðið var það síðast 2011-12 og datt þá út fyrir franska félaginu Marseille. Tveimur tímabilum fyrr, 2009-2010, þá vann Internazionale Meistaradeildina undir stjórn Jose Mourinho.

Luciano Spalletti hefur stjórnað liðum í 51 leik í Meistaradeildinni og unnið 20 þeirra. Lengst komst hann lið AS Roma  í átta liða úrslitin 2007 og 2008. Hann fór lengst með lið Zenit St. Petersburg í sextán liða úrslit.

Síðasti Meistaradeildarleikur hans var með AS Roma á móti Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinar 8. mars 2016. Real Madrid vann 2-0 með mörkum Cristiano Ronaldo og James Rodríguez en spænska liðið fór síðan alla leið og vann Meistaradeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×