Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir að ná tali af fólki sem var á ferðinni nærri stórbrunann á Hvaleyrarbraut síðastliðið föstudagskvöld. Lögreglan segist vilja ná tali af bæði fólki sem ók þar framhjá sem og gangandi vegfarendum.
Sást fólkið á myndefni sem lögreglu barst og segir mikilvægt að þetta fólk hafi samband sem fyrst.
Lögreglan rannsakar nú eldsupptök í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði sem meðal annars hýsti Glugga- og hurðasmiðju SB.
Eftir að slökkvistarfi lauk var lögreglu afhentur vettvangur til rannsóknar á eldsupptökum. Þeirri vinnu er lokið og tryggingarfélagi hefur verið afhent húsið til að hreinsunarstarf geti hafist. Ekkert liggur fyrir um eldsupptök á þessu stigi, en báðar hæði hússins eru mjög illa farnar eftir brunann. Rannsóknardeild lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði mun halda rannsókninni áfram í samvinnu við tæknideild embættisins.
Lögreglan bendir á að hægt er að hafa sambandi við lögreglu í gegnum jgs@lrh.is, í gegnum einkaskilaboð á fésbókarsíðu embættisins og í gegnum símann 444-1000.

