Erlent

Apollo geimfari segir að mannaðir Marsleiðangrar séu heimskulegir

Andri Eysteinsson skrifar
Bill Anders, lengst til vinstri, ásamt félögum sínum úr Apollo 8. Jim Lovell og Frank Borman (H)
Bill Anders, lengst til vinstri, ásamt félögum sínum úr Apollo 8. Jim Lovell og Frank Borman (H) Getty/ Museum of Science and Industry
Einn af þeim þremur sem fóru út í geim með Apollo 8 árið 1968, William „Bill“ Anders, segir að áform um að senda geimfara til plánetunnar Mars séu heimskuleg.

Anders var ásamt geimfaranum Frank Borman gestur BBC í sérstökum þætti vegna 50 ára afmælis Apollo 8 verkefnisins.

Anders var ásamt Frank Borman og James Lovell Jr. um borð í Apollo 8. Ferð þeirra var í fyrsta skiptið sem mannað geimfar fór út fyrir sporbaug jarðar. Apollo 8 fór hring um tunglið og náði Anders einni frægustu geim mynd sem náðst hefur, Jarðarupprás. Geimfararnir um borð í Apollo 8 voru valdir menn ársins 1968 af tímaritinu Times.

Einn geimfaranna, Bill Anders, sem einnig gegndi stöðu sendiherra Bandaríkjanna í Noregi 1976 til 1977, sagði í viðtali við BBC Radio 5 Live að áform NASA um að senda mannað geimfar til Mars væru heimskuleg.



Anders sem nú er 85 ára gamall sagðist í viðtalinu vera stuðningsmaður þess að senda ómönnuð geimför til rauðu plánetunnar, að mestu vegna efnahagslegra sjónarmiða. „Til hvers, hver er ástæðan fyrir því að við þurfum að fara til Mars,“ sagði Anders og bætti við að hann héldi að almenningur hefði ekki áhuga á Marsverkefnunum.

Frank Borman, félagi Anders um borð í Apollo 8 sagði við sama miðil að hann væri ekki jafn gagnrýninn á NASA og félagi sinn. Borman gagnrýndi þó áform auðkýfinganna Elon Musk og Jeff Bezos sem báðir hafa talað um eigin geimskot til Mars. „Musk og Bezos, þeir eru að tala um að stofna nýlendur á Mars, það er bull,“ sagði Borman.

Myndin Earthrise sem Bill Anders tók um borð í Apollo 8 árið 1968.EPA/ Bill Anders



Fleiri fréttir

Sjá meira


×