Erlent

Fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan dæmdur vegna spillingar

Andri Eysteinsson skrifar
Nawaz Sharif varð í þrígang forsætisráðherra Pakistan, fyrst árið 1990.
Nawaz Sharif varð í þrígang forsætisráðherra Pakistan, fyrst árið 1990. EPA/ Narendra Shrestha
Fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan, Nawaz Sharif hefur verið dæmdur til sjö ára fangelsisvistar vegna spillingar. Dómur var felldur yfir Sharif í Islamabad í dag, auk fangelsisvistarinnar var Sharif sektaður um 25 milljónir dala. CNN greinir frá.

Sharif var ákærður vegna spillingar sem tengdist kaupum fjölskyldu hans á Al Azizia stálverksmiðjunni sem keypt var með fé úr ríkissjóði. Sharif fjölskyldan notaði fyrirtækið til peningaþvottar, skattaundanskota og til að fela aflandseignir.

Stuðningsmenn forsætisráðherrans fyrrverandi söfnuðust saman fyrir utan réttarsalinn og beitti lögregla táragasi gegn mótmælum þeirra.

Fyrr á árinu var Sharif dæmdur til fangelsisvistar ásamt dóttur sinni, Maryan, fyrir annað spillingarmál. Þrjú barna Sharif voru á meðal þeirra sem komu fram í Panamaskjölunum og var Sharif gert að segja af sér vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×