Innlent

Segir minna um að konur fari heim um jól af meðvirkni við ofbeldismann

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf. Vísir/Pjetur Sigurðsson.
Sjö konur og sex börn borðuðu jólamatinn í Kvennaathvarfinu í gær en um tuttugu íbúar dvelja þar yfir jólin. Framkvæmdastýra athvarfsins segir minna um að konur velji að fara heim um jólin af meðvirkni við ofbeldismanninn. 

Það sem af er ári hafa rúmlega hundrað og þrjátíu konur og rúmlega sjötíu börn dvalið í Kvennaathvarfinu en íbúum athvarfsins hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár.  

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf, segir að það sé búið að vera nóg um að vera í athvarfinu síðustu daga.

„Það eru næstum því tuttugu íbúar skráðir í athvarfið svona yfir jólin. Í gærkvöldi voru hjá okkur sjö konur og sex börn sem borðuðu hjá okkur og það voru falleg jól. Jólasveinninn kíkti á okkur fyrr um daginn og svo nutu konur og börn jólanna saman,“ segir Sigþrúður

Seinna um kvöldið komu svo fleiri konur sem voru nú þegar skráðar í athvarfið.

„Svo skiluðu íbúar sér svona eftir því að leið á kvöldið og inn í nóttina.

„Oftast er það þannig að þær sem ekki eru hjá okkur yfir hátíðirnar eru kannski hjá ættingjum eða vinum eða er boðið að vera einhvers staðar annars staðar.“

Minna sé um það að konur sem dvelji í athvarfinu kjósi að fara heim til sín og vera með ofbeldismanninum yfir hátíðirnar af meðvirkni. 

Sigþrúður segir síðustu daga hafa einkennst af því að taka á móti gjöfum til heimilisfólks athvarfsins.

„Það æpti á okkur síðustu dagana fyrir jól þessi mikli kærleikur í garð athvarfsins og íbúa. Það var mikið um dýrðir,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×