Fótbolti

Klopp um Alisson: Ef ég vissi að hann væri svona góður þá hefði ég borgað tvöfalt meira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alisson Becker með Jürgen Klopp.
Alisson Becker með Jürgen Klopp. Vísir/Getty

Sóknarmenn Liverpool fengu ótal færi til að gera út um leikinn á móti Napoli í Meistaradeildinni í gærkvöldi en á úrslitastundu var það markvörðurinn Alisson Becker sem bjargaði liðinu.

Stuðningsmenn Liverpool eru enn að jafna sig eftir hryllileg markvarðarmistök Loris Karius í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor en geta varla verið sáttari með markvörðinn sinn í dag.

Hetja gærkvöldsins var án efa Alisson Becker sem varði algjört dauðafæri frá sóknarmanni Napoli í lok leiksins. Hefði Arkadiusz Milik skorað fyrir Napoli úr þessu færi þá hefði Liverpool þurft að skora tvö mörk sem var þrautinni þyngra.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, réði sér ekki fyrir kæti í leikslok og enginn var sáttari með Alisson Becker en hann.„Ef ég vissi að Alisson væri svona góður þá hefði ég borgað tvöfalt meira, sagði Jürgen Klopp en Liverpool borgaði Roma 66,8 milljónir punda fyrir brasilíska markvörðinn í sumar.

Alisson Becker var dýrasti markvörður heims í aðeins nokkrar vikur en Chelsea sló metið með því að kaupa Kepa Arrizabalaga frá Athletic Bilbao fyrir 71,6 milljónir punda.

Mohamed Salah skoraði eina mark leiksins og á meðan Alisson Becker hélt marki sínu hreinu þá var það alltaf nóg. Það munaði hinsvegar ótrúlega litlu þegar boltinn datt fyrir Arkadiusz Milik á markteignum.

Alisson Becker brást ekki á úrslitastundu, gerði sig stórann og komst fyrir skotið. Napoli menn trúðu ekki sínum eigin augum en leikmenn Liverpool fögnuðu Alisson Becker aftur á móti eins og hann hefði skorað mark.

„Markið sem Mo skoraði var ótrúlegt en ég á engin orð til að lýsa markvörslunni hjá Ali (Allison). Hann bjargaði lífi okkar í kvöld,“ sagði Klopp.

„Vá, þvílíkur leikur. Ég er ekki viss um að knattspyrnustjóri geti verið stoltari af liði sínu en ég er núna,“ sagði Klopp.

Alisson Becker er búinn að halda tólf sinnum hreinu á tímabilinu þarf af tvisvar í sex leikjum í Meistaradeildinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.