Fótbolti

AC Milan fékk risasekt og verður á skilorði

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stórlið AC Milan er í vandræðum.
Stórlið AC Milan er í vandræðum. Vísir/EPA

Ítalska stórliðið AC Milan fékk í dag 12 milljón evra sekt frá Evrópska knattspyrnusambandinu fyrir að hafa brotið reglur sambandsins um fjármál félaga. Sektin er sú hæsta síðan reglurnar voru settar á árið 2014.

UEFA setti reglurnar til að sporna við ofboðslegri eyðslu í knattspyrnuheiminum. Lið eins og PSG og Manchester City hafa þótt dansa á línunni hvað varðar brot á reglunum og jafnvel verið talið að einhver félög hafi nýtt sér galla í reglunum til að komast framhjá þeim og eyða meira en þau þéna.

Sektin sem AC Milan fær kemur til vegna leikmannakaupa og launa leikmanna á árunum 2014-2017. Upphaflega var félagið dæmt í bann frá Evrópukeppnum en kærði þann úrskurð til Íþróttadómstólsins sem mildaði dóminn og félagið gat því keppt í Evrópudeildinni í haust en þar féll félagið úr leik í gær eftir tap gegn Olympiakos.

Auk sektarinnar verður Milan á skilorði til árins 2021 og verður dæmt í bann frá Evrópukeppnum brjóti félagið reglurnar á nýjan leik fram að þeim tíma. Þá fær félagið einungis að skrá 21 leikmann á leikmannalista í Evrópukeppnum næstu tvö árin í stað 25 líkt og önnur félög.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.