Talsverðar umferðartafir á Kringlumýrarbraut vegna umferðaróhapps sem átti sér stað klukkan fjögur. Um var að ræða árekstur tveggja bíla við Fossvog en meiðsli á farþegum og ökumönnum eru ekki talin alvarleg.
Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að ekki þurfi mikið til að valda miklum töfum á álagstíma í umferðinni í Reykjavík.
Hann segir álagstímann jafnan vera frá fjögur til hálf sex síðdegis en nú í aðdraganda jóla sé hann jafnvel til hálf sjö.
Unnið er að því að koma bílunum af vettvangi og því má ætla að það muni taka vegfarendur lengri tíma að komast á leiðarenda.
Miklar tafir vegna umferðaróhapps á Kringlumýrarbraut
Birgir Olgeirsson skrifar
