Fótbolti

UEFA samþykkir þriðju Evrópukeppnina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Knattspyrnusamband Evrópu rekur nú þegar tvær vel metnar félagsliðakeppnir
Knattspyrnusamband Evrópu rekur nú þegar tvær vel metnar félagsliðakeppnir vísir/getty
Stjórn UEFA hefur samþykkt að setja á laggirnar þriðju félagsliðakeppni sambandsins við hlið Meistaradeildar Evrópu og Evrópudeildarinnar.

Stjórn sambandsins fundaði í Dublin í dag samhliða drættinum í undankeppni EM 2020 og samþykkti þar tillöguna um að koma þriðju Evrópukeppninni á laggirnar frá og með tímabilinu 2021-22.

„Þessi keppni þýðir að fleiri lið frá fleiri samböndum fá fleiri leiki,“ sagði forseti UEFA Aleksander Ceferin.

Vinnuheiti keppninnar er UEL2, eða Evrópudeild 2, og verður með svipuðu sniði og keppnirnar tvær sem UEFA heldur nú þegar úti. Riðlakeppni sem verður svo að útsláttarkeppni.

32 lið keppa í átta riðlum, tvö lið úr hverjum riðli fara áfram í 16-liða úrslit og svo framvegis í úrslitin.

Auka umferð verður haldin áður en 16-liða úrslitin fara fram þar sem lið í öðru sæti í sínum riðlum mæta liðum í þriðja sæti riðlanna í Evrópudeildinni. Sigurvegari þeirra einvíga fara svo í 16-liða úrslit þessarar keppni. 

Sigurvegari þessarar keppni fær þáttökurétt í Evrópudeildinni tímabilið eftir.

Það þýðir að þessi deild verður í lægri styrkleikaflokki en Evrópudeildin og ætti því að vera nokkuð góður möguleiki á að sjá íslensk lið komast í riðlakeppni hennar, þau hafa verið nálægt riðlakeppnum Evrópudeildarinnar síðustu ár.

Leikirnir í nýju keppninni fara fram samhliða leikjum Evrópudeildarinnar á fimmtudögum, þriðjudagar og miðvikudagar verða áfram tileinkaðir Meistaradeildinni.

Í tilkynningu UEFA segir að þessi nýja keppni muni tryggja það að að minnsta kosti 34 mismunandi Evrópulönd muni eiga félag í riðlakeppni í Evrópukeppnunum. Í dag er þessi tala 26 lönd.

Vinna að keppninni er enn á frumstigi en ljóst að landslagið í Evrópuboltanum mun breytast verulega eftir þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×