Fótbolti

Búið að stela þessum leik frá stuðningsmönnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn River Plate með pappamynd af þjálfaranum Marcelo Gallardo.
Stuðningsmenn River Plate með pappamynd af þjálfaranum Marcelo Gallardo. Vísir/Getty
Úrslitaleikurinn í Copa Libertadores bikaranum verður eins og kunnugt er spilaður í allt annarri heimsálfu og  í tíu þúsund kílómetra fjarlægð frá upphaflegum leikstað.

Eftir að stuðningsmenn River Plate, réðust á liðsrútu Boca Juniors og seinni úrslitaleik liðanna var frestað í tvígang, var á endanum ákveðið að færa leikinn frá Buenos Aires til Madrid á Spáni.

Úrslitaleikurinn verður nú spilaður á Santiago Bernabeu, heimavelli Real Madrid, en hann fer fram á næsta sunnudag.

Marcelo Gallardo, þjálfari River Plate, er ekki sáttur með tilfærsluna. „Það er búið að stela þessum leik frá stuðningsmönnunum. Þetta er algjör skömm,“ sagði Marcelo Gallardo eftir leik River Plate um helgina.  BBC segir frá.

Þessi seinni leikur er heimaleikur River Plate en sá fyrri endaði með 2-2 jafntefli á heimavelli Boca Juniors.

„Við höfðum misst heimaleikinn okkar. Ég er viss um það að þegar við endurskoðum það sem hefur gerst í þessu máli þá munum við skammast okkar,“ sagði Marcelo Gallardo.





„Okkar undirbúningur hefur breyst. Núna erum við að fara að spila í tíu þúsund kílómetra fjarlæægð. Þetta á að vera Copa Libertadores Suður-Ameríku,“ sagði Gallardo.

River Plate hefur líka hótað því að mæta ekki í leikinn en á móti hafa Boca Juniors menn barist fyrir því að River Plate yrði dæmt úr keppni vegna framkomu stuðningsmanna þess.

Hvort lið fær 25 þúsund miða á leikinn en mega samt aðeins selja fimm þúsund þeirra til fólks sem er búsett í Argentínu.

Barra Brava, öfgastuðningsmannahópur River Plate og oft kölluð mafían í argentínska fótboltanum, bar ábyrgð á árásinni á liðsrútu Boca Juniors og nú er allt gert til að aðilar úr honum komist ekki á leikinn í Madrid.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×