Innlent

Gæti fjölgað farþegum og orðið lyftistöng fyrir innanlandsflugið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Bíldudalsflugvelli. Jetstream-flugvél frá Flugfélaginu Erni á flughlaðinu.
Frá Bíldudalsflugvelli. Jetstream-flugvél frá Flugfélaginu Erni á flughlaðinu. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Niðurgreiðslur flugfargjalda til íbúa landsbyggðarinnar gætu orðið lyftistöng fyrir innanlandsflugið og fjölgað farþegum, ef vel tekst til með útfærsluna, að mati Harðar Guðmundssonar, forstjóra Flugfélagsins Ernis. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Flugfélagið Ernir fagnaði nýrri Dornier-skrúfuþotu í gær en forstjórinn leynir því ekki að reksturinn sé þungur. Innanlandsfluginu fylgi áskoranir um þessar mundir. 

„Já, heldur betur. Það verður að segjast alveg eins og er að innanlandsflugið hefur bara ekki gengið neitt sérlega vel, - ekki frekar en millilandaflugið. Það þekkja það allir sem hafa fylgst með fréttum af því,“ segir Hörður. 

Flugfélagið Ernir sinnir áætlunarflugi til fimm staða á landsbyggðinni; Bíldudals, Gjögurs, Húsavíkur, Hornafjarðar og Vestmannaeyja.

Hörður Guðmundsson, forstjóri Flugfélagsins Ernis. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Starfshópur á vegum samgönguráðherra skilaði í byrjun vikunnar tillögum um að svokölluð skosk leið verði farin, þannig að íbúar fjarri Reykjavík fái helmingsniðurgreiðslur af flugfargjöldum að ákveðnu hámarki.

„Það gæti gert það að verkum að farþegum myndi eitthvað fjölga í innanlandsfluginu og vonandi gerist það,“ segir Hörður. 

Hann gagnrýndi það í fyrra að innanlandsflugið nyti ekki jafnræðis gagnvart öðrum almenningssamgöngum. Flugið þyrfti að keppa við ríkisstyrktar ferjur og niðurgreiddar strætóferðir, og auk þess að standa undir farþegasköttum, lendingargjöldum og margskyns eftirlitsgjöldum. Nú virðist ætlun stjórnvalda að jafna þennan aðstöðumun. 

„Ef vel tekst til á þetta að geta orðið til góðs. En svo á maður bara eftir að sjá hvernig útfærslan verður. Ef hún verður eins og maður er að vona þá hefur maður trú á því að þetta geti orðið svolítil lyftistöng. Vonandi gerir það það,“ segir Hörður.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.