Erlent

Tillerson segir Trump reynt að gera ólöglega hluti

Samúel Karl Ólason skrifar
Tillerson og Trump þegar allt lék í lyndi.
Tillerson og Trump þegar allt lék í lyndi. Getty/Bloomberg
Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Donald Trump, forseta, vera agalausan. Hann segir að Trump vilji ekki lesa og hafa reynt að framkvæma ólöglega hluti. Trump rak Tillerson fyrir nærri því níu mánuðum síðan. Þá var Tillerson sagður hafa kallað Trump fávita og hann hefur aldrei neitað því.

Þetta sagði Tillerson í viðtali við CBS sem birt var í gærkvöldi.

Hann sagði hafa reynst sér erfitt að koma frá fyrirtæki eins og Exxon Mobil, þar sem ríkti mikill agi og fara að vinna fyrir óagaðan mann eins og Trump, sem vildi ekki lesa, læsi ekki undirbúningsgögn sem væru skrifuð fyrir hann og vildi ekki kynna sér málefni ítarlega. Í stað þess að fara eftir staðreyndum sagði Tillerson að Trump færi eftir eigin tilfinningum.

Tillerson sagði einnig frá því að hann hefði aldrei hitt Trump áður en forsetinn bauð honum ráðherrastólinn.

Ráðherrann fyrrverandi sagði einnig að Trump hefði ítrekað reynt að gera ólöglega hluti og hann hefði orðið pirraður þegar honum var sagt að hann gæti það ekki.

„Forsetinn sagði oft: Hér er það sem ég vil gera og ég vil gera það svona. Ég sagði þá við hann: Herra forseti, ég skil hvað þú vilt gera en þú getur ekki gert það svona. Það er ólöglegt,“ sagði Tillerson á fjáröflun í gær



Við það yrði Trump pirraður út í Tillerson. Hann sagðist þá hafa sagt Trump að þeir gætu tekið slaginn á þingi og fengið lögunum breytt. Það væri ekkert að því og ef forsetinn vildi það myndi hann reyna.


Tengdar fréttir

Bræði og óreiða í Hvíta húsinu

Síðustu dagar í Hvíta húsinu hafa einkennst af mikilli bræði Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og óreiðu en von er á miklum sviptingum meðal starfsmanna forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×