Erlent

Lög­reglu­menn drepnir í árás á kín­verska ræðis­manns­skrif­stofu

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað um klukkan 9:30 að staðartíma í morgun.
Árásin átti sér stað um klukkan 9:30 að staðartíma í morgun. Getty/Shakil Adil
Tveir lögreglumenn voru drepnir og öryggisvörður særðist í árás þriggja manna á kínverska ræðismannsskrifstofu í pakistönsku hafnarborginni Karachi. Einnig hafa borist fréttir af því að 25 manns hafi fallið í sjálfsvígssprengjuárás í landinu í morgun.

BBC  greinir frá því að árásin hafi átt sér stað um klukkan 9:30 að staðartíma, um 4:30 í nótt að íslenskum tíma, fyrir utan skrifstofuna í hverfinu Clifton. Árásarmennirnir þrír voru allir felldir af lögreglu.

Að sögn lögreglu slasaðist enginn í starfsliði ræðismannsskrifstofunnar.

Aðskilnaðarhópur sem berst fyrir sjálfstæði Balochistan-héraðs hefur sagst bera ábyrgð á árásinni í Karachi í morgun. Kínverjar hafa fjárfest mikið í Balochistan og segjast aðskilnaðarsinnar líta á þá, sem og pakistönsk stjórnvöld, sem kúgara sína.

25 féllu í Orakzai

Í morgun bárust sömuleiðis fréttir af því að 25 manns hafi látið lífið í sprengingu á markaðstorgi í bæ í héraðinu Orakzai í norðvesturhluta landsins. Ekki liggur fyrir hver ber ábyrgð á árásinni að svo stöddu. Pakistanskir fjölmiðlar segja að sjálfsvígssprengjumaður hafi ekið á bifhjóli inn í mannfjölda og sprengt þar sjálfan sig í loft upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×