Erlent

Heimsmeistaraeinvígið í bráðabana eftir umdeilda ákvörðun Carlsen

Andri Eysteinsson skrifar
Heimsmeistarinn Carlsen tók ákvörðun sem hefur vekið furðu meðal skákheimsins.
Heimsmeistarinn Carlsen tók ákvörðun sem hefur vekið furðu meðal skákheimsins. EPA/ Facundo Arrizabalaga
Heimsmeistaraeinvígi heimsmeistarans norska Magnus Carlsen og áskorandans Fabian Caruana frá Bandaríkjunum í skák mun fara í bráðabana. Þetta er ljóst eftir að tólfta skákin milli stórmeistaranna endaði, líkt og hinar ellefu, með jafntefli.

Carlsen virtist í skákinni vera með pálmann í höndunum en nýtti ekki tækifæri sín. Guardian greinir frá.

Bandaríkjamaðurinn Fabian Caruana hugsi.EPA/ Facundo Arrizabalaga

Með sex vinninga hvor um sig eftir tólf skákir

Í tólftu skákinni, sem fram fór í kvöld, virtist norðmaðurinn Magnus Carlsen, ríkjandi heimsmeistari síðan 2013, vera með yfirhöndina og stefndi allt í sigur hans.

Carlsen beitti í skákinni sikileyskri Sveshnikov vörn en tókst ekki að nýta sér stöður sínar til fulls.

Þrátt fyrir að vera í betri stöðu en Caruana og hafði þar að auki meiri tíma til að vinna með heldur en andstæðingur hans, bauð Carslen Caruana upp á jafntefli. Staðan í einvíginu því 6-6.

Furðar sig á ákvörðun Carlsen

Stórmeistarinn Garry Kasparov, sem var heimsmeistari FIDE í skák á árunum 1985-1990, gagnrýndi ákvörðun norðmannsins á Twitter og sagði að í ljósi mistakanna teldi hann Caruana sigurstranglegri í bráðabanaskákunum á miðvikudaginn.

Caruana getur með sigri orðið fyrsti bandaríski heimsmeistarinn í skák síðan að Bobby Fischer sigraði Spassky í Laugardalshöllinni árið 1972.

Heimsmeistaraeinvígið fer fram í London og var fyrsta skákin tefld föstudaginn 9. nóvember.

Eftir tólf jafntefli í röð munu bráðabanaskákir skera úr um úrslit einvígisins. Þær munu fara fram miðvikudaginn næsta, 28. nóvember.

Sjá má framvindu tólftu skákar Carlsen og Caruana á Chess.com hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×