Innlent

Lyfjaleifar og kynhormón fundust í íslensku vatni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mynd frá sýnatökum í sumar.
Mynd frá sýnatökum í sumar. Mynd/Umhverfisstofnun

Ýmsar tegundir lyfja fundust við sýnatökur Umhverfisstofnunar á íslensku vatni í sumar. Sýni voru bæði tekin úr sjó og ferskvatni en á meðal efna sem fundust voru bólgueyðandi lyf, geðlyf og kynhormónið estrógen.

Umhverfisstofnun stóð í sumar fyrir sýnatökum í vatni í þeim tilgangi að kortleggja útbreiðslu efna sem talin eru ógn við vatnaumhverfi í Evrópu. Sýni voru tekin í hafinu við Klettagarða þar sem er að finna stærstu skólpútrásir höfuðborgarsvæðisins, í Varmá neðan Hveragerðis og við bakka Mývatns við Reykjahlíð.

Um er að ræða efni sem eru á sérstökum Vaktlista Evrópusambandsins og hefur m.a. að geyma lyfjaleifar, kynhormón og varnarefni. Að auki var kannað hvort hér á landi fyndust lyfjaleifar sem eru á sérstökum vaktlista í Svíþjóð.

Niðurstöður mælinganna á sýnunum eru þær að í íslensku umhverfi er að finna fjögur efni af sextán á vaktlista Evrópusambandsins. Efnin sem um ræðir eru Clarithomycin, Diclofenac og Erythromycin sem eru efni sem finnast í sýkla- og bólgueyðandi lyfjum. Að auki fannst kynhormónið estrógen í sýnunum sem voru tekin. Engin varnarefni (skordýra eða plöntuvarnarefni) af listanum var að finna í íslensku sýnunum.

Af þeim tuttugu efnum sem eru á sænska vaktlistanum yfir lyfjaleifar fundust fimmtán í sýnunum sem voru tekin hér á landi. Um er að ræða efni sem finnast m.a. í geðlyfjum, hjarta- og blóðþrýstingslyfjum, sýklalyfjum, verkjastillandi og lyfjum sem tekin eru við sveppasýkingum og kynsjúkdómum.

Niðurstöðurnar benda til að töluvert magn lyfja berist út í umhverfið með frárennsli. Lyfin geta borist í frárennsliskerfin með ýmsum hætti, eins og frá búfjárhaldi, með útskilnaði frá fólki eða þegar fólk losar sig við lyf í frárennsliskerfið. Fráveitur á Íslandi búa ekki yfir búnaði til að hreinsa lyfjaleifar úr fráveituvatninu. Því er mikilvægt að skila inn til apóteka öllum lyfjaafgöngum sem falla til á heimilum til að þeim verði fargað á réttan hátt og endi ekki í umhverfinu. Rannsóknir í Evrópu sýna að lyfjaleifar finnast orðið víða í umhverfinu, m.a. í drykkjarvatni og í vatnalífverum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.