Fótbolti

Lars Lagerbäck búinn að minnka forskot Íslands á FIFA-listanum um 30 sæti á árinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck rýkur enn á ný upp FIFA-listann með landslið sitt.
Lars Lagerbäck rýkur enn á ný upp FIFA-listann með landslið sitt. Vísir/Getty

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er komið niður í 37. sæti á nýjasta styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins og hefur íslenska liðið fallið niður um 19 sæti frá því í mars. Góðkunningi okkar er aftur á móti á uppleið.

Lars Lagerbäck, fyrrum þjálfari íslenska landsliðsisn, er á sama tíma á hraðri uppleið með norska karlalandsliðið á FIFA-listanum. Norðmenn fara upp um tvö sæti á nýjasta listanum og eru nú í 46. sæti. Fyrir aðeins nokkrum mánuðum voru þeir í 58. sætinu.

Það munaði mest 39 sætum á íslenska og norska landsliðinu í marsmánuði en síðan þá hefur Lars Lagerbäck minnkað forskot íslenska landsliðsins um 30 sæti á FIFA-listanum.

Norska landsliðið vann 8 af 10 leikjum sínum á árinu á sama tíma og íslenska landsliðið náði ekki að vinna leik með sínu aðalliði.

Þegar Lars Lagerbäck tók við íslenska landsliðinu í árslok 2011 þá var liðið í 104. sæti á FIFA-listanum. Liðið fór síðan niður í 131. sæti áður en Lars tókst að snúa við skútunni. Undir hans stjórn var liðið komið upp í 49. sæti í lok ársins 2013 og komst í 22. sæti áður en hann hætti með liðið eftir EM í Frakklandi 2016.

Lars Lagerbäck þekkir það því vel að bruna upp FIFA-listann með sín landslið. Þegar hann tók við Norðmönnum í febrúar 2017 þá voru þeir í 83. sæti listans. Hann fór upp um 109 sæti með íslenska landsliðið og hefur nú þegar farið upp um tæp 40 sæti með norska landsliðinu.

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á landsliðum Íslands og Noregs á FIFA-listanum í ár og þar má sjá hvernig þessi tvö landslið eru á leiðinni í sitthvora áttina á listanum.

Ísland og Noregur á FIFA-listanum á árinu 2018:
Nóvember:  Ísland +9 (Ísland 37. sæti - Noregur 46. sæti)
Október:  Ísland +12 (Ísland 36. sæti - Noregur 48. sæti)
September:  Ísland +16 (Ísland 36. sæti - Noregur 52. sæti)
Ágúst:  Ísland +21 (Ísland 32. sæti - Noregur 53. sæti)
Júní:  Ísland +31 (Ísland 22. sæti - Noregur 53. sæti)
Maí:  Ísland +26 (Ísland 22. sæti - Noregur 48. sæti)
Apríl:  Ísland +27 (Ísland 22. sæti - Noregur 49. sæti)
Mars:  Ísland +39 (Ísland 18. sæti - Noregur 57. sæti)
Febrúar:  Ísland +38 (Ísland 18. sæti - Noregur 56. sæti)
Janúar:  Ísland +38 (Ísland 20. sæti - Noregur 58. sæti)Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.