Innlent

Fær ekki að yfirgefa landið sjálfviljugur

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðmundur Einarsson er formaður sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju.
Guðmundur Einarsson er formaður sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju. Vísir

Flóttamaður hér á landi getur ekki nýtt lagalegan rétt sinn til að yfirgefa landið sjálfviljugur þar sem stjórnvöld eru með vegabréf hans í vörslu sinni. Þess í stað verður hann fluttur úr landi nauðugur á morgun til lands þar sem hann segist vera ofsóttur.

Um er að ræða flóttamann frá Azerbaijan. Hann kom hingað til lands og sótti um hæli en umsókn hans var synjað. Við komuna til landsins var vegabréfið tekið af honum og er það enn í vörslu stjórnvalda samkvæmt formanni sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju.  

„Í Azerbaijan eru 97 prósent þjóðarinnar múslimar. Þrjú prósent þjóðarinnar eru kristnir og hann er í þeim hópi og þeir eru ofsóttir af meirihlutanum,“ segir Guðmundur Einarsson, formaður sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju. 

Þegar ljóst var að hann yrði sendur úr landi lýsti hann yfir vilja til að yfirgefa landið sjálfviljugur og fara til Rússlands þar sem hann telur sig öruggan. En í 2.mgr 104.gr. laga um útlendinga kemur fram að Útlendingastofnun skuli veita útlendingi frest í 7-30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Hann getur þó ekki nýtt þennan lagalega rétt sinn þar sem stjórnvöld eru með vegabréf hans í sinni vörslu. Þess í stað verður hann fluttur aftur til Azerbaijan í fyrramálið þar sem hann á von á frekari ofsóknum.

Guðmundur segir það skjóta skökku við að slíkur lagalegur réttur sé fyrir hendi þegar einstaklingum er gert það ókleift að nýta hann. 

„Það er spurning hvernig farið er með mannréttindi manna sem eiga erfitt með að verja sig. Mér þykir miður að eiga heima í svoleiðis landi,“ segir Guðmundur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×