Fótbolti

Bolt fær stuðning frá Pogba og Sterling

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bolt í leik með Central Coast Mariners.
Bolt í leik með Central Coast Mariners. vísir/getty
Jamíka-maðurinn Usain Bolt reynir sem fyrr að elta draum sinn að fara úr því að verða spretthlaupari í fótboltamann. Bolt hefur verið á reynslu í Ástralíu en það gekk ekki eftir.

Bolt var á reynslu hjá Central Coast Mariners og spilaði með þeim tvo leiki en ekki komust aðilarnir að samkomulagi. Bolt leitar sér því að nýju liði.

Í nýju viðtali sagði fljótasti maður heims að hann væri ekki að velta því fyrir sér hvað fólk út í bæ væri að segja um hann. Hann sé einfaldlega bara að elta sinn draum.

„Fólk má segja það sem það vill. Ég er vanur því. Ég var hlaupari og fólk hugsaði illa til mín þegar ég byrjaði en ég kom þeim á óvart á hverju ári,“ sagði Bolt í viðtali.

Á dögunum talaði fyrrum landsliðsmaður Írlands, Andy Keogh, um Bolt. Hann sagði að fyrsta snerting Bolt væri eins og trampólín og vandaði honum ekki kveðjurnar. Bolt missir ekki svefn yfir því.

„Fótbolti er eitthvað sem ég vil. Ég er viss um að Keogh sé ekki á sama stað og hann byrjaði á. Ég tek þessu ekki persónulega og ég hlæ að þessu því ég hef hitt Patrick Viera og marga fræga fótboltamenn.“

„Ég hef talað við Pogba og Sterling og þeir eru ánægðir að sjá mig reyna. Þeir sögðu við mig að ég gæti þetta og sýndu mér stuðning svo ég hef ekki áhyggjur af einum og einum leikmanni sem segir eitthvað um mig.“

„Þetta snýst ekki um peninga. Þetta er draumur og mig langar að prufa og sjá hversu góður ég get orðið,“ sagði hinn sprettharði að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×