Fótbolti

Arnór Sig: Draumur að rætast

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta A-landsleik í kvöld er Ísland tapaði 2-0 fyrir Belgíu í Þjóðadeildinni.

Framganga Arnórs undanfarnar vikur og mánuði hefur vakið mikla athygli og hann fékk traustið hjá Erik Hamrén í byrjunarliðinu í kvöld.

„Þetta er búið að vera draumur síðan ég var krakki og hann rættist hérna í dag og ég er því auðvitað stoltur,“ sagði Arnór í leikslok.

„Það var fínt að spila í fyrri hálfeik. Þeir voru meira með boltann eins og við bjuggumst við en þeir voru samt ekki að ógna neitt.“

Ísland komst í tvö til þrjú ágætis færi en náði ekki að koma boltanum í netið. Arnór segir að það hafi verið svekkjandi og þrátt fyrir fjarveru marga lykilmanna segir hann að menn geti verið stoltir af frammistöðu kvöldsins.

„Það var svekkjandi að við fengum ekki mörkin inn hjá okkur. Við vissum að við þyrftum að vera duglegir að hlaupa og bjóða okkur í svæði. Þetta var þannig leikur.“

„Þó að það hafi vantað lykilmenn þá getum við verið stoltir af frammistöðunni í dag. Það er engin ástæða til annars,“ sagði Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×