Innlent

Jónas gefur lítið fyrir gagnrýni á stjórn

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands.
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands. Stöð 2
„Krafan um fundinn er byggð á lögum félagsins um að hundrað félagsmenn geti beðið um svona fund. Þegar þeir eru ekki nema helmingurinn af því segir það sig sjálft að við getum ekki orðið við beiðninni,“ segir Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands.

Á föstudag var send krafa, studd af 163 undirskriftum, um að félagsfundur yrði haldinn til að ræða stöðuna sem upp er komin í félaginu eftir að Heiðveigu Maríu Einarsdóttur var vikið úr félaginu. Í tilkynningu frá stjórn félagsins kemur fram að aðeins 52 af þeim sem skrifuðu undir kröfuna séu félagsmenn.

Jónas gefur lítið fyrir gagnrýni ýmissa verkalýðsforingja og ályktun aðalfundar Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum um brottvikningu Heiðveigar. Hann segir að þegar Jötunn hafi slitið sig frá sameiningarviðræðum hafi bara verið vitnað í það sem Heiðveig hafi sagt um stjórnina.

„Þetta eru svona einhverjar eftiráskýringar sem segja ekki neitt. Þetta er mjög sérkennilegt. Svo er þarna nýja fólkið í Alþýðusambandinu. Það blasti við að þegar stofnfundur hins nýja félags yrði, væru öll hin félögin búin að segja sig úr ASÍ. Þeirra upplegg er eitthvað tengt því að mínu mati. Það er pólitík í þessu.“

Hann segist hafa verið minntur á það af eldri félögum að þetta sé í þriðja sinn svo vitað sé sem einhverjum sé vikið úr félaginu. „Í hin tvö skiptin hefðu nú þótt léttvægar ástæður að baki miðað við nú. Skemmdarverkið er þvílíkt að þetta varð ekki umflúið,“ segir Jónas.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.