Innlent

Segir enga sérhæfða þjónustu í boði fyrir krabbameinssjúka eftir fjögur á daginn

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Guðbjörn Jóhann Kjartansson greindist með krabbamein í janúar síðastliðinn. Á þeim tíma sem hann var í krabbameinsmeðferð þurfti hann nokkrum sinnum að sækja í bráðaþjónustu eftir klukkan fjögur á daginn. Krabbameinsdeildir eru eingöngu opnar milli átta og fjögur og þurfti hann því að sækja þjónustuna inn á Bráðadeild spítalans í Fossvogi.

Guðbjörn Jóhann Kjartansson greindist með krabbamein í upphafið árs.
Guðbjörn segir þann stað lífsógnandi fyrir einstaklinga með bælt ónæmiskerfi en í fréttum stöðvar 2 í gær  benti Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, á þá staðreynd að Ísland sé eina Norðurlandaþjóðin sem aldrei hefur verið með virka krabbameinsáætlun. Án hennar vanti heildræna yfirsýn í málaflokkinn. Guðbjörn Jóhann telur mikila þörf á því að stjórnvöld virki áætlunina. Heildræn stefna skipti höfuð máli fyrir fólk sem berst fyrir lífi sínu.

„Mér finnst að það ætti að vera sér bráðamóttaka fyrir krabbameinssjúklinga. Fólk á að geta sótt á spítalann án þess að þurfa að eiga á hættu að sýkjast af öðrum veikindum, svo sem kvefi eða lungnabólgu. Það þarf að vera hægt að fá sérhæfða þjónustu,“ segir hann.

Hann bendir á að þegar þú ert með krabbamein og veikist skyndilega að kvöldi til þá eigir þú ekki að þurfa að hræðast það að leita á spítalann. Sjálfur er hann laus við meinið en undir stöðugu eftirliti næstu árin.

„Það er erfitt fyrir ónæmisbældan krabbameinssjúkling að lenda í því, kannski eftir lokun, að verða veikur og þurfa svo að leita á bráðamóttöku þar sem fyrir er mikið af veiku fólki. Þurfa svo að bíða í dágóðan tíma eftir að geta komist inn á herbergi sem er sérhannað fyrir krabbameinssjúklinga,“ bendir hann á.

Samkvæmt upplýsingum frá Velferðarráðuneytinu verður málið tekið fyrir eftir helgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×