Fótbolti

Shaqiri óhræddur við að spila í Belgrad

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Shaqiri spilaði vel þegar Liverpool burstaði Red Star á Anfield í vikunni
Shaqiri spilaði vel þegar Liverpool burstaði Red Star á Anfield í vikunni vísir/getty
Xherdan Shaqiri, leikmaður Liverpool, kveðst ekki kvíða því að heimsækja Belgrad, höfuðborg Serbíu, þar sem Liverpool mun heimsækja Rauðu Stjörnuna í næstu umferð Meistaradeildar Evrópu.

Ansi líklegt er að Shaqiri muni fá óblíðar móttökur frá stuðningsmönnum Rauðu Stjörnunnar sem eru sannarlega engin lömb að leika sér við en Shaqiri er ekki mjög vinsæll í Serbíu.

Á HM í Rússlandi gerði hann Serba æfa þegar hann fagnaði sigurmarki sínu gegn þeim með því að sýna arnarmerki til að sýna stuðning við Albaníu.

Shaqiri er frá Kosóvó þó hann spili fyrir Sviss en Serbar herjuðu á landið skömmu fyrir aldamót.

„Ég hef þegar lent í því á HM svo ég veit hvernig ég á að takast á við þetta. Ég hef lesið einhverjar greinar þar sem menn tala um þetta en það skiptir mig ekki máli.“

„Ég er að fara þangað til þess að spila fótboltaleik og ekkert annað. Þetta er ekki pólitík heldur fótbolti og ég óttast ekkert þegar ég fer þangað til að keppa,“ segir Shaqiri ákveðinn.

Eins og sjá má á myndbandi hér fyrir neðan er það ekki fyrir hvern sem er að spila á heimavelli Rauðu Stjörnunnar þegar stemningin nær hámarki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×