Innlent

Alskýjað þegar Thomas segist hafa verið við stjörnuskoðun

Birgir Olgeirsson skrifar
Thomas Møller Olsen mætir í dómsal í Landsrétti í morgun.
Thomas Møller Olsen mætir í dómsal í Landsrétti í morgun. Vísir/Vilhelm
Thomas Møller Olsen segist hafa pissað og horft á stjörnurnar á meðan hann beið eftir að félagi hans Nikolaj Olsen sneri aftur eftir að hafa ekið á brott með Birnu Brjánsdóttur í janúar í fyrra. Saksóknari benti Thomas á að það hefði verið skýjað aðfaranótt 14. janúar árið 2017 þegar Birna hvarf. 



Thomas var dæmdur til nítján ára fangelsivistar í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra fyrir að hafa orðið Birnu að bana aðfaranótt 14. janúar árið 2017. Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að sýnt hefði verið fram á að Thomas hefði ráðið Birnu bana og losað sig við lík hennar í Ölfusá við Óseyrarbrú.



Thomas áfrýjaði málinu til Landsréttar þar sem aðalmeðferð fer fram í dag. Málsvörn Björgvins Jónssonar, verjanda Thomasar, snýst að mestu leyti um að beina sjónum að skipverjanum Nikolaj Olsen.

Nikolaj Olsen bar vitni í héraðsdómi. Verjandi Thomasar óskaði ekki eftir því að hann bæri aftur vitni.Fréttablaðið/Anton Brink

Segir Nikolaj hafa viljað prívatstund

Við Landsrétt var framburður Thomasar í héraði rakinn. Þar sagði Thomas að Nikolaj hefði óskað eftir að eiga prívatstund með stúlku sem var í bílaleigubíl þeirra. Thomas hefði farið úr bílnum við Golfskála Kópavogs- og Garðabæjar og Nikolaj ekið í burtu. Nikolaj hefði svo snúið aftur skömmu síðar og sagt stúlkuna hafa ákveðið að ganga restina af leiðinni heim til sín.



Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari spurði Thomas hvernig hann og Nikolaj hefðu fundið hvor annan aftur, þar sem Thomas hafði skilið símann eftir í bílnum. Thomas sagði að Nikolaj hafa einfaldlega komið aftur á sama stað. Saksóknari spurði Thomas hvað hann hefði gert á meðan hann beið eftir Nikolaj. Thomas sagðist hafa pissað og horft á stjörnurnar. Saksóknari brást við með því að segja að skýjað hefði verið þessa nótt. Thomas fullyrti engu að síður að hann hefði séð stjörnur.



Fréttastofa sendi fyrirspurn á Veðurstofu Íslands í dag og spurði hvernig himininn hefði verið umrædda nótt/morgun. Athugun klukkan 06 að morgni segir að alskýjað hafi verið, súld og 20 km skyggni, segir í svari Veðurstofu.



Thomas var spurður hvers vegna hann hefði breytt framburði sínum í dómsal í héraði frá því sem var í skýrslutöku hjá lögreglu. Thomas hélt því fram að hann hefði verið beittur miklu harðræði á meðan hann hefði verið í haldi lögreglu. Hann vildi meina að hann hefði verið vakinn á tveggja tíma fresti, öskrað á hann og hann kallaður öllum illum nöfnum. 

Kia Rio bíllinn sem skipverjarnir á Polar Nanoq tóku á leigu.Vísir

Héraðdómur merkti ekki harðræði 

Grænlenski skipverjinn sagði foreldra sína hafa starfað hjá lögreglu í fleiri ár. Þess vegna hefði hann haft tiltrú á lögreglumönnunum í fyrstu. Eftir að hafa að eigin sögn orðið fyrir harðræði af lögreglu ákvað hann að tjá sig ekki frekar.



Saksóknari benti á að Thomas hefði verið yfirheyrður átta sinnum hjá lögreglu. Þá hefði framburður hans nánast ávallt verið sá sami en tekið svo miklum breytingum í héraði. 



Spurður hvers vegna framburður hans hefði ekki tekið meiri breytingum miða við harðræðið sem hann var beittur ítrekaði Thomas afstöðu sína. Hann ítrekaði hana enn þegar saksóknari benti á að héraðsdómur hefði horft á upptökur af skýrslutökum Thomasar hjá lögreglu og metið svo að hann hefði ekki verið beittur þrýstingi þar.

Grænlenski togarinn Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn.Fréttablaðið/Anton Brink

Segist aldrei myndu kaupa úlpu í miðstærð

Meðal annarra gagna sem lögð verða fram eru myndir af Facebook-síðu hjá kærustu Nikolaj Olsen, sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins, og myndband úr eftirlitsmyndavél við Golfklúbb Garðabæjar sem þrívíddarhönnuður gerði fyrir verjanda Thomasar.



Fram kemur í greinargerð verjanda hans, sem lögð var fram í Landsrétti, að Thomas eigi ekki blóðuga úlpu sem fannst í togaranum Polar Nanoq. Úlpan sé í miðstærð sem sé of lítil á Thomas.



„Það má ljóst vera að ákærði sem er 188 sm á hæð og þrekvaxinn kaupir sér ekki úlpu af stærðinni medium,“ segir í greinargerðinni. Thomas eigi svipaða úlpu en hún sé í XL.  



Thomas fullyrti að úlpan væri ekki hans. Hann myndi aldrei kaupa úlpu í medium heldur alltaf í extra large. Hann fullyrti að þáverandi kærasta sín hefði verið með sér þegar hann keypti úlpuna í extra large.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari flytur málið í héraði.Vísir/Vilhelm

Mikið fyrir hreinlæti

Thomas var spurður hvort að Nikolaj hefði verið ökufær en Thomas fullyrti að svo hefði verið enda ekki svo drukkinn. Hann hefði séð það því Nikolaj gat gengið. Hvorki saksóknari né verjandi fór fram á að Nikolaj gæfi skýrslu í Landsrétti. Nikolaj bar við minnisleysi í héraðsdómi sökum áfengisneyslu.



Thomas hélt því fram að hann hefði notast við samskiptaforritið Wicker þessa nótt. Samskipti á Wicker eru dulkóðuð og eyðast eftir einhvern tíma. Thomas sagðist hafa notað þetta samskiptaforrit til að ræða við mann vegna pakka sem hann ók með þessa nótt. Thomas vildi ekki gefa upp við hvern hann talaði á Wicker og sagðist ekki ætla að tjá sig um það mál. Thomas var sakfelldur fyrir tilraun til innflutnings á fíkniefnum sem fundust í Polar Nanoq.



Þegar saksóknari benti honum á að rannsókn lögreglu leiddi í ljós að hann hefði ekki notað Wicker þessa nótt sagðist hann ekki vilja tjá sig frekar um málið. 



Thomas hafði sagt fyrir dómi að hann hefði þrifið brúnan blett úr aftursæti bílaleigubílsins. Hann hélt að um ælublett hefði verið að ræða. Sagði hann Grænlendinga vera mikið fyrir hreinlæti og að hann vildi skila bílnum hreinum. Hann sagðist ekki hafa séð fleiri bletti í bílnum.

Björgvin Jónsson á leið í lögmannsklæðin áður en undirbúningsþinghaldið fór fram í málinu í Landsrétti á dögunum.Vísir/Vilhelm

„Hann er sá eini sem veit það“

Aðeins einn maður getur útskýrt hvert og hvernig Thomas Møller Olsen ók nóttina sem Birna Brjánsdóttir hvarf í janúar í fyrra og það er Thomas sjálfur. Þetta sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Leifur Halldórsson í Landsrétti í morgun. 



Þar var til umræðu akstur rauða Kia Rio bílsins sem Thomas var með á leigu. Á meðan Thomas var með bílinn á leigu var honum ekið um 319 kílómetra. Samkvæmt niðurstöðu skýrslu lögreglunnar um akstur bifreiðarinnar er talið að óútskýrður akstur á bifreiðinni sé um 190 kílómetrar. Vitað er að hann ók 129 kílómetra innanbæjar á höfuðborgarsvæðinu. Það liggi fyrir út frá því hvar bíllinn sást á eftirlitsmyndavélum verslana, líkamsræktarstöðva og verslunarmiðstöðva. 



Verjandi Thomasar spurði Leif allskonar spurninga um hvað Thomas hefði og hefði ekki getað gert. Leifur sagðist ekkert geta svarað til um það. Aðeins Thomas gæti það. Leifur benti á að Thomas hefði neitað að segja lögreglu hvert hann ók þessa óútskýrðu kílómetra og því væri allt tal um hvað mögulegt væri ágiskun og fabúleringar.    



„Hann er sá eini sem veit það,“ sagði Leifur og benti á Thomas. 

Mikill fjöldi björgunarsveitamanna kom að leitinni að Birnu Brjánsdóttur í janúar í fyrra.Fréttablaðið/Eyþór

Hafnar öllu tali um harðræði

Björgvin Jónsson, verjandi Thomasar, sagði lögreglu hafa metið sem svo að Thomas hefði valið ávallt stystu leiðina á milli staða þar sem hann bíllinn sást á eftirlitsmyndavélum, með því að nota Google Maps. Verjandi spurði Leif hvort að lögregla hefði skoðað sögu Google Maps í síma Thomasar en Leifur svaraði því neitandi.



Þegar talið barst að því hvar líkama Birnu hefði verið komið fyrir í sjó sagði Leifur að hann hefði einungis sagt í skýrslu hvar talið var líklegt að henni hefði verið komið fyrir út frá því hvar hún fannst. Leifur benti aftur á að sá sem veit hvert ekið var kysi að tjá sig ekki um það, og vísaði þar til Thomasar. 



„Ákærði veit þetta allt.“



Thomas hét því fram við Landsrétt í morgun að hann hefði verið beittur harðræði í haldi lögreglu og þess vegna hefði framburður hans breyst frá því hvað hann sagði í skýrslutöku hjá lögreglu og til þess sem hann sagði frá í héraði. 



Leifur hafnaði þessari fullyrðingu og benti á að verjandi Thomasar í héraði hefði aldrei gert athugasemdir við skýrslutökur yfir Thomasi. Sagði Leifur að það hefði verið auðvelt að kalla eftir gögnum frá lögreglu, til dæmis upptökum úr myndavélum á fangelsisganginum. 



Thomas hélt því fram að hann hefði verið vakinn á tveggja tíma fresti í haldi og kallaður illum nöfnum. Leifur sagði að vissulega hefði Thomas verið vakinn með reglulegu millibili. Það hefði verið vegna rannsóknar tæknideildar og lækna á honum annars vegar og þegar verið var að færa hann til skýrslutöku hins vegar. Allt tal um harðræði væri ekki rétt. 

Polar Nanoq við komuna aftur til Íslands.Fréttablaðið/Anton Brink

Undrandi þegar skipinu var snúið við

Tekin var skýrsla símleiðis yfir tveimur Grænlendingum, vinum Nikolaj, sem Nikolaj ræddi við í síma nóttina örlagaríku. Annar sagði Nikolaj hafa tjáð sér að hann væri fullur í miðbæ Reykjavíkur og ætlaði að fara að sofa í skipinu, Polar Nanoq. Hann hefði verið leiður því hann hefði átt í ágreiningi við kærustu sína.



Hinn vinurinn, skipverji á Polar Nanoq sem boðaður var til að gefa skýrslu í héraðsdómi en mætti ekki, sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir alvarleika málsins. Þá væri dönskukunnátta hans ekki góð. Hann minntist þess að hafa rætt við Thomas um borð í Polar Nanoq þegar skipinu var snúið aftur til Íslands.



Thomas hefði svarað: „Í alvöru?“ Thomas hefði hætt að vinna og farið. Þetta hefði grænlenska vitninu fundust skrýtið eftir á að hyggja.



Hann hefði sömuleiðis spurt Nikolaj hvort hann vissi um ástæður þess að verið væri að snúa aftur við til Íslands. Nikolaj hefði svarað á þá leið að kannski kæmi það í ljós, kannski yrðu þeir yfirheyrðir.

 

Áhaldahús Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Eftirlitsmyndavélin sést undir þakskegginu. Þar segist Thomas hafa kastað af sér vatni og horft á stjörnurnar.Fréttablaðið/Ernir

Reynt að greina hæð bílstjórans

Spilað var þrívíddarmyndband í Landsrétti sem hafði verið gert að beiðni Björgvins Jónssonar, verjanda Thomasar, eftir upptöku úr eftirlitsmyndavél við golfskála Golfklúbbs Kópavogs- og Garðabæjar á Vífilsstöðum nóttina sem Birna var myrt. Á myndbandinu sést Kia Rio bifreið sem Thomas hafði á leigu. 



Þrívíddarmyndbandið var unnið af kvikmyndamyndagerðarmanni sem sérhæfir sig í þrívíddarteikningum og hefur meðal annars unnið við Latabæjarþættina. Var myndbandinu ætlað að sýna fram á að möguleiki væri á því að Thomas Møller hefði ekki verið undir stýri þegar Kia Rio bílnum var ekið hjá golfskálanum heldur Nikolaj Olsen.



Var miðað við nokkra þætti sem voru sjáanlegir á eftirlitsmyndbandinu og reynt að finna út hversu stór manneskjan var sem ók bílnum og hvort einhver hafi verið í farþegasætinu. 



Niðurstaða þrívíddarmyndbandsins var sú að talið væri líklegt að ökumaðurinn bílsins væri um 175 sentímetrar á hæð og ómögulegt að hann sé yfir 190 sentímetrar á hæð. Thomas er 188 cm á hæð.



Sagði kvikmyndagerðarmaðurinn að hann hefði miðað við ákveðin meðaltöl en ekki gert ráð fyrir breytum sem ekki væri hægt að reikna með. Til dæmis að fólk væri mismunandi í vexti og gæti verið með lengri fætur en gengur og gerist miðað við hæð. Þá var einnig sætisstillingin miðuð út frá upprunalegri stillingu og ekki tekið tillit til hvort búið væri að hækka eða lækka sætið. 



Þegar horft var á upprunalega myndbandið var kvikmyndagerðarmaðurinn spurður hvað hann sæi móta fyrir í farþegasætinu. Hann taldi það vera sætisbak á meðan saksóknari taldi það vera manneskju sem hallar út að farþegahurðinni. 



Framundan í Landsrétti er spilun upptöku af framburði Nikolaj Olsen. Líklegt má telja að málflutningur verjanda og sækjanda fari fram á morgun.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Stúlkan sem snerti streng í brjósti íslensku þjóðarinnar

Birna Brjánsdóttir verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju klukkan 15 í dag. Óhætt er að segja að mál hennar hafi hreyft við þjóðinni en hún hvarf aðfaranótt laugardagsins 14. janúar og fannst látin í fjörunni við Selvogsvita átta dögum síðar. Lögreglan telur að henni hafi verið ráðinn bani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.