Fótbolti

Fyrsti og sá eini til að vinna fimmtán leiki í röð en fékk stígvélið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jardim er nú án starfs.
Jardim er nú án starfs. vísir/getty
Leonardo Jardim var í dag rekinn sem stjóri Mónakó í franska boltanum en brösug byrjun Mónakó á leiktíðinni kostaði Jardim starfið.

Jardim tók við Mónakó sumarið 2014 og leiddi liðið meðal annars í átt að franska titlinum tímabilið 2016/2017 en það var í fyrsta sinn í sautján ár sem Mónakó vann deildina.

Sama ár fór liðið einnig í undanúrslit Meistaradeildarinnar en tímabilið í ár hefur farið brösuglega af stað. Liðið er með einn sigur í fyrstu níu leikjunum í Ligue 1 og er í átjánda sætinu.

Tölfræði Jardim með franska liðið er þó ansi góð. Hann stýrði liðinu í 232 leikjum og hafði betur í 125 þeirra. Hann tapaði einungis 52 leikjum af 232.

Það var ekki eina tölfræðin sem heillaði heldur var hann einnig sá fyrsti í sögu frönsku úrvalsdeildarinnar til þess að vinna fimmtán leiki í röð; frá febrúar 2017 til ágúst 2017.

Eftirmaður Jardim verður að öllum líkindum Thierry Henry en hann er sagður að fjölmiðlum í Frakklandi vera efstur á óskalista Mónakó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×