Innlent

Lögregla lýsir eftir fjórða manninum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla vill ná tali af þessum mönnum.
Lögregla vill ná tali af þessum mönnum. Mynd/Lögreglan
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af mönnunum sem sjá má hér að ofan vegna máls sem hún hefur til meðferðar, og eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglustöðina á Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík í síma 444 1000.

Fyrir helgi auglýsti lögreglan að hún vildi ná tali af þremenningum en ljóst er að nú hefur einn bæst við í hóp þeirra sem auglýst er eftir.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar eru mennirnir grunaðir um að hafa stolið háum fjárhæðum af eldra fólki um þar síðustu helgi. Í öllum tilfellum nálguðust þjófarnir eldri konur í kringum verslanir.

Skúli Jónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að enginn hafi verið handtekinn í tengslum við rannsókn á málinu. Rannsókn málsins sé í fullum gangi.

Ef einhverjir þekkja til mannanna, eða vita hvar þá er að finna, eru hinir sömu einnig beðnir um að hringja í lögregluna, en upplýsingum má jafnframt koma á framfæri í tölvupósti á netfangið adalsteinna@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.




Tengdar fréttir

Enn ekkert spurst til þremenninganna

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki fundið mennina þrjá sem lýst var eftir nú fyrir helgi. Eins hafa engar ábendingar borist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×