Erlent

Serbneskur þjóðernissinni vinnur leiðtogasæti í Bosníu

Kjartan Kjartansson skrifar
Dodik var glaður í bragði þegar hann greiddi atkvæði um helgina.
Dodik var glaður í bragði þegar hann greiddi atkvæði um helgina. Vísir/EPA
Milorad Dodik, serbneskur þjóðernissinni, vann sigur í kosningum um sæti í þriggja manna forsetaráði Bosníu og Hersegóvínu. Dodik er sagður hafa náin tengsl við stjórnvöld í Rússlandi og hefur hvatt Bosníu-Serba til að stofna sitt eigið ríki.

Aðdragandi kosninganna um helgina er sagður hafa einkennst af kynþáttaníði og ógnunum af hálfu leiðtoga einstakra þjóðarbrota sem eftirlitsmenn hafa sagt að minni á tíma Bosníustríðsins. Dodik hefur meðal annars sagt að Bosnía-Hersegóvína hafi brugðist sem ríki.

Þrjú þjóðarbrot skipta með sér völdum í Bosníu-Hersegóvínu. Bosníumúslimar, Króatar og Serbar kjósa hver sinn fulltrúann í þriggja manna forsetaráð sem komið var á fót eftir Bosníustríðið á 10. áratug síðustu aldar. Ríkið er svo klofið í Serbneska lýðveldið og Sambandsríki múslima og Króata.

„Mitt fyrsta forgangsmál verður staða serbnesku þjóðarinnar og Serbneska lýðveldisins,“ sagði Dodik sem lýsti kjöri sínu sem „tandurhreinu“. Bandarísk stjórnvöld beittu Dodik refsiaðgerðum árið 2015 fyrir að hafa reynt að hindra framkvæmd Dayton-samninganna sem bundu enda á Bosníustríðið.

Íbúar Bosníu-Hersegóvínu hafa átt erfitt uppdráttar undanfarin ár. Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC er einn af hverjum fimm atvinnulaus, þar á meðal nærri helmingur ungs fólks. Um 5% þjóðarinnar, um 200.000 manns, hafa yfirgefið landið til að vinna erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×