Fótbolti

Evrópumeistararnir komnir í úrslitaleikinn um laust sæti á HM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hollendingar fagna marki Lineth Beerensteyn í kvöld.
Hollendingar fagna marki Lineth Beerensteyn í kvöld. vísir/getty
Evrópumeistararnir í Hollandi eru komnir í úrslitaleikinn um laust sæti á HM í Frakklandi eftir 2-1 sigur á Danmörku í síðari leik liðanna í undanúrslitunum um laust sæti á HM á næsta ári.

Holland var í góðum málum eftir 2-0 sigur í fyrri leiknum en Nadia Nadim galopnaði einvígið fyrir Dani með marki úr vítaspyrnu strax á fimmtu mínútu leiksins í kvöld.

Adam var ekki lengi í paradís því tveimur mínútum síðar jafnaði Lineth Beerensteyn metin fyrir Hollendinga. Því þurftu Danir þrjú mörk til þess að komast áfram vegna útivallarmarkareglunnar.

Danirnir sóttu án afláts í síðari hálfleik. Pernille Harder fór meðal annars illa með góð færi í tvígang og það var svo Lineth Beerensteyn sem tryggði Hollendingum sigurinn í uppbótartíma. 2-1 í kvöld og samanlagt 4-1.

Sviss er einnig komið í úrslitaleikinn eftir 1-1 jafntefli gegn nágrönnum sínum í Belgíu í kvöld. Sviss fer áfram á útivallarmörkum en fyrri leikurinn endaði með 2-2 jafntefli í Belgíu.

Það verða því Sviss og Holland sem mætast í tveimur leikjum, fimmta og tólfta nóvember, sem sker úr um hvort liðið fari á HM í Frakklandi næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×