Fótbolti

Evrópumeistararnir komnir í úrslitaleikinn um laust sæti á HM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hollendingar fagna marki Lineth Beerensteyn í kvöld.
Hollendingar fagna marki Lineth Beerensteyn í kvöld. vísir/getty

Evrópumeistararnir í Hollandi eru komnir í úrslitaleikinn um laust sæti á HM í Frakklandi eftir 2-1 sigur á Danmörku í síðari leik liðanna í undanúrslitunum um laust sæti á HM á næsta ári.

Holland var í góðum málum eftir 2-0 sigur í fyrri leiknum en Nadia Nadim galopnaði einvígið fyrir Dani með marki úr vítaspyrnu strax á fimmtu mínútu leiksins í kvöld.

Adam var ekki lengi í paradís því tveimur mínútum síðar jafnaði Lineth Beerensteyn metin fyrir Hollendinga. Því þurftu Danir þrjú mörk til þess að komast áfram vegna útivallarmarkareglunnar.

Danirnir sóttu án afláts í síðari hálfleik. Pernille Harder fór meðal annars illa með góð færi í tvígang og það var svo Lineth Beerensteyn sem tryggði Hollendingum sigurinn í uppbótartíma. 2-1 í kvöld og samanlagt 4-1.

Sviss er einnig komið í úrslitaleikinn eftir 1-1 jafntefli gegn nágrönnum sínum í Belgíu í kvöld. Sviss fer áfram á útivallarmörkum en fyrri leikurinn endaði með 2-2 jafntefli í Belgíu.

Það verða því Sviss og Holland sem mætast í tveimur leikjum, fimmta og tólfta nóvember, sem sker úr um hvort liðið fari á HM í Frakklandi næsta sumar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.