Erlent

Hundrað létust þegar ferju hvolfdi í Tansaníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. AP/Rauði kross Tansaníu
Minnst hundrað létust þegar ferja hvolfdi á Viktoríuvatni í Tansaníu í gærkvöldi. Fjölmargra er enn saknað en óttast er að rúmlega 200 manns hafi drukknað. Talið er að ferjan hafi verið ofhlaðin og hún hafi hvolft þegar margir farþegar fóru út á aðra síðu ferjunnar þegar hún var að koma að landi.

Samkvæmt BBC er ferjan hönnuð fyrir hundrað farþega en talið er að um 400 manns hafi verið um borð. Það er þó óljóst, samkvæmt lögreglu, þar sem sá sem seldi miða um borð drukknaði og miðavélin er týnd.



Slys sem þetta hafa verið tíð í Tansaníu á undanförnum árum. Árið 2012 dóu 145 manns þegar ferja sökk í Indlandshafi. Árið 2011 dóu nærri því 200 manns þegar ferja sökk og árið 1996 dóu rúmlega 800 manns þegar skipið MV Bukoba hvolfdi á Viktoríuvatni.

Íbúar héraðsins þar sem slysið varð óttast nú að hafa misst fjölskyldumeðlimi og bíða eftir símtali, samkvæmt BBC. Einn maður sem rætt var við sagðist hafa misst frænku sína, faðir og yngri bróður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×