Í þáttunum er rætt við fólk sem er að skara fram úr á sínu sviði. Þessir mánuðir eru viðburðaríkir hjá Kristínu Þóru en fyrr í vikunni vann hún til verðlauna á kvikmyndahátíðinni Queer Lisboa í Portúgal en það var fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Andið eðlilega í leikstjórn Ísoldar Uggadóttur, sem frumsýnd var í vor og hlaut einnig mikið lof.
„Það var gríðarlegt traust á tökustað, gríðarlegt traust milli allra,“ segir Kristín Þóra um Lof mér að falla. Eitt atriðið í myndinni er sérstaklega sláandi en þar leikur Kristín á móti Víkingi Kristjánssyni. Í atriðinu er raunverulegur heimur sprautufíkla sýndur á mjög grafískan hátt og ofbeldi sem sjaldan hefur sést fyrir augum Íslendinga.
„Ég get alveg viðurkennt það að þetta er það erfiðasta sem ég hef gert. En á sama tíma hugsaði ég að þetta er raunveruleiki svo margra og ég get alveg harkað af mér að leika í þessari senu. Það sem var átakanlegt við þetta allt, var hvað þetta er satt. Fólk er að ganga í gegnum þetta og það fannst mér rosalega erfið tilhugsun.“
Í þættinum ræðir Kristín einnig um samstarf sitt við aðstandendur kvikmyndarinnar Lof mér að falla og leikarana, um ástæðuna af hverju hún ákvað að gerast leikkona og þau gríðarlega mikilvægu skilaboð sem kvikmyndin sendir út í samfélagið. Síðan var farið vel yfir feril Kristínar í leiklistinni.
Hér að neðan má sjá fyrsta þáttinn af Einkalífinu en þátturinn verður vikulega og kemur út alla fimmtudaga.