Enski boltinn

Zinedine Zidane segir stutt í það að hann snúi aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane skoðar bikarinn sem hann hefur unnið einu sinni sem leikmaður og þrisvar sinnum sem stjóri.
Zinedine Zidane skoðar bikarinn sem hann hefur unnið einu sinni sem leikmaður og þrisvar sinnum sem stjóri. Vísir/Getty

Jose Mourinho stýrði Manchester United til sigurs í síðasta leik fyrir landsleikjahlé en orðrómurinn um Zinedine Zidane er ekkert að deyja.

Orð Zinedine Zidane í sjónvarpsviðtali á Spáni um helgina ættu líka að virka eins og olía á eld þegar kemur að fréttum um að Frakkinn bíði eftir því að verða „skipt“ inná fyrir Jose Mourinho.

Zinedine Zidane hætti með lið Real Madrid síðasta vor eftir að hafa unnið níu titla á tveimur og hálfu ári og stýrt liðinu til sigurs í Meistaradeildinni þrjú ár í röð.

Nú segist þessi knattspyrnugoðsögn vera tilbúinn að snúa aftur í boltann og það sem fyrst.

Sjónvarpsmaður TVE, spænska ríkissjónvarpsins, spurði Zidane hreint út hvort hann væri að koma til baka í þjálfun. „Já án nokkurs vafa. Það er stutt í það að ég snúi aftur því þar vil ég vera og þar hef ég verið alla mína ævi,“ svaraði Zinedine Zidane.

Zidane hitti sjónvarpsfólkið á leik með syni sínum Elyaz en sá var að spila með einu af unglingaliðum Real Madrid.Það var margt gott við sigurinn á Burnley og ekki síst það að Manchester United liðinu tókst að halda hreinu í fyrsta sinn á leiktíðinni eftir að hafa fengið á sig sex mörk í tveimur leikjum á undan.

Það þarf aftur á móti meira en 2-0 sigur á Burnley til að létta pressunni af Jose Mourinho og þá sérstaklega þegar maður eins og Zinedine Zidane liggur á húninum.

Fyrsti leikur Manchester United eftir landsleikjahlé er á móti Watford um næstu helgi en Watford liðið hefur verið á miklu flugi og er búið að vinna fjóra fyrstu leiki sína.

Leikurinn er líka á Vicarage Road þar sem Tottenham tapaði 2-1 í síðustu umferð en þrír af fjórum fyrstu leikjum liðsins hafa verið á heimavelli.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.