Fótbolti

Margir tóku þátt í síðasta sigri A-landsliðsins en spila með 21 árs liðinu í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundssin skoraði þrennu í síðasta sigurleik A-landsliðsins.
Albert Guðmundssin skoraði þrennu í síðasta sigurleik A-landsliðsins. Vísir/Getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta vann síðast leik í janúar síðastliðnum en þá voru stjörnuleikmenn íslenska liðsins uppteknir með félagsliðum sínum þar sem leikurinn var ekki spilaður á alþjóðlegum leikdegi.

Bæði A-landsliðið og 21 árs landsliðið eru að spila á heimavelli í dag en fleiri leikmenn úr síðasta sigurliði A-landsliðsins spila með 21 árs liðinu í dag en spila með A-liðinu.

Leikir beggja landsliða verða sýndir beint á Stöð 2 Sport. Útsending frá leik 21 árs landsliðsins á móti Slóvakíu hefst klukkan 15.15 á Stöð 2 Sport og útsendingin frá leik A-landsliðsins á móti Belgíu hefst klukkan 17.45 á Stöð 2 Sport.

Það eru liðnir 240 dagar síðan íslenska karlalandsliðið vann leik en sá kom í ævintýraferð til Asíu í upphafi ársins.

Síðasti sigurleikur karlalandsliðsins í fótbolta var 4-1 sigur á Indónesíu í Jakarta 14. janúar 2018.

Albert Guðmundsson skoraði þrennu í leiknum en fjórða markið skoraði Arnór Smárason.

Fimm leikmenn 21 árs landsliðsins sem mætir Slóvakíu í dag fengu mínútur með A-liðinu í þessum sigri á Indónesíu. Auk Alberts voru það Óttar Magnús Karlsson, Felix Örn Friðriksson, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Samúel Kári Friðjónsson    

Aðeins fjórir leikmenn A-landsliðsins í dag spiluðpu mínútur í þessum sigri en það voru þeir Rúnar Alex Rúnarsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Jón Guðni Fjóluson og Arnór Ingvi Traustason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×