Erlent

Sakar lögreglu um að sverta mannorð manns sem var skotinn af lögregluþjóni

Samúel Karl Ólason skrifar
Hinn 26 ára gamli Botham Jean var jarðsunginn í gær.
Hinn 26 ára gamli Botham Jean var jarðsunginn í gær. Vísir/AP

Lögreglan í Dallas í Bandaríkjunum opinberaði í gær að rúm tíu grömm af marijúana hefðu fundist í íbúð manns sem skotinn var til bana af lögregluþjóni á frívakt. Lögmaður fjölskyldu mannsins segir lögregluna reyna að sverta mannorð Botham Jean.

Jean var skotinn á heimili sínu af lögregluþjóninum Amber Guyger sem bjó í sama fjölbýlishúsi. Konan mun hafa talið að hún væri í eigin íbúð og taldi Jean vera innbrotsþjóf. Önnur útgáfa af banaskotinu segir að til átaka hafi komið á milli Guyger og Jean.

Guyger hefur verið ákærð fyrir manndráp en hún var handtekinn þremur dögum eftir að atvikið átti sér stað.

Lee Merritt, lögmaður fjölskyldu Jean, segir að leitin sem hafi verið framkvæmd á heimili Jean, sýni fram á annarlegan tilgang rannsóknar lögreglunnar.

„Þeir fóru þarna inn í þeim tilgangi að finna réttlætingu fyrir banaskotinu. Þetta er mynstur sem við höfum séð áður. Við erum að tala um lögregluþjón sem greinilega gerði eitthvað rangt og í stað þess að rannsaka morðið, í stað þess að fara í íbúð hennar og sjá hvað þeir finna, í stað þess að leita vísbendinga í tengslum við morðið, leita þeir sérstaklega leiða til að sverta mannorð þessa unga manns.“

Jean vann hjá pricewaterhouseCoopers í Dallas og mun hafa varið miklu tíma í góðgerðastarf.

Samkvæmt USA Today segir í dómsskjölum að lögreglan í Dallas hafi fundið tvær patrónur, lögreglubakpoka, fartölvu og ýmislegt fleira. Lögreglan framkvæmdi leitina áður en málið var fært í hendur starfsmanna Texas Rangers, sem er annað lögregluembætti í Texas.

Jarðarför Jean fór fram í gær, skömmu áður en fundur fíkniefnanna var opinberaður.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.